Sjúkratryggingar semja við sjúkraþjálfara

Samningur hefur verið undirritaður til fimm ára.
Samningur hefur verið undirritaður til fimm ára. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Nýr samningur hefur tekist á milli Sjúkratrygginga og Félags sjúkraþjálfara. Samningurinn er til fimm ára en sjúkraþjálfarar hafa verið á samnings við ríkið í fjögur ár.

Haft er eftir Willum Þór Þórssyni heilbrigðisráðherra í tilkynningu að með samningnum falli niður aukagjöld sem lögð hafa verið á sjúklinga.

Þar segir jafnframt að frá og með 1. júní falli niður þau aukagjöld sem lögð hafa verið á sjúklinga í samningsleysinu. Þann 1. október tekur samningurinn síðan gildi að fullu, þegar lokið er nauðsynlegum tæknilegum útfærslum og forritunarvinnu.

Aukning á milli ára 

Fram kemur í tilkynningu að samkvæmt upplýsingum Sjúkratrygginga hafi rúmlega 62 þúsund einstaklingar sótt þjónustu sjúkraþjálfara á liðnu ári. Árið 2022 leituðu tæplega 56 þúsund manns til sjúkraþjálfara og var því aukning um 11,3% á milli ára. Það sem af er ári 2024 hafa um 42 þúsund manns farið í sjúkraþjálfun sem er 3,9% aukning frá því sama tíma í fyrra.

Aukagjöldin 1.500-3.000 krónur 

„Á því árabili sem enginn samningur hefur verið í gildi við sjúkraþjálfara hafa Sjúkratryggingar tekið þátt í kostnaði við þjónustu þeirra samkvæmt sérstakri gjaldskrá. Sjúkraþjálfarar hafa á þeim tíma innheimt aukagjald við hverja komu sem hefur gjarnan numið á bilinu 1.500 - 3.000 kr. Sjúkraþjálfara munu hætta að innheimta þessi aukagjöld frá og með 1. júní,“ segir í tilkynningu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert