Kvaðst aka 44 kílómetra til að losa sorpið

Íbúi Borgarbyggðar er ekki ánægður með að þurfa að greiða …
Íbúi Borgarbyggðar er ekki ánægður með að þurfa að greiða gjald fyrir það sem hann gerir sjálfur. Ekki kemst hann þó undan gjaldskyldu þar sem um grunnþjónustu er að ræða. mbl.is/Sigurður Bogi

Með úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála á fundi hennar í síðustu viku synjaði nefndin íbúa í Borgarbyggð um ógildingu álagningar gjalds fyrir rekstur grenndar- og móttökustöðvar sorps í sveitarfélaginu.

Hafði íbúinn sætt álagningu gjaldsins samkvæmt álagningarseðli fasteignagjalda ársins 2024 í janúar en gjaldið nemur rúmum 32.000 krónum. Krafðist hann ógildingar á þeirri forsendu að sveitarfélagið hefði lokað öllum grenndarstöðvum sorpmóttöku og væri því ekki stætt á að innheimta gjald fyrir reksturinn.

Bar andmælandi því við að hann þyrfti að aka með sorp sitt um 44 kílómetra leið á Sólbakka í Borgarnesi þar sem afgreiðslutími væri auk þess stuttur.

Afþakkaði tunnurnar

Svaraði sveitarfélagið því til að gjaldskrá þess skiptist í tvennt eftir því hvaða þjónusta væri þegin, væri þar um rekstur grenndarstöðvar að ræða annars vegar en hins vegar tunnugjald. Þar sem íbúinn sem kærði álagninguna hefði afþakkað sorptunnur við hús sitt væri grenndarstöðvargjaldið lagt á hann.

Vísaði úrskurðarnefndin til þess að íbúinn hefði afþakkað tunnurnar á þeirri forsendu að um frístundahúsnæði væri að ræða en þar sem sveitarfélaginu væri skylt að tryggja sorphirðu hjá íbúunum væri því stætt á að innheimta fyrrnefnda gjaldið fyrir rekstur grenndarstöðvar.

Benti úrskurðarnefndin á að þegar um þjónustugjöld væri að ræða giltu ýmis sjónarmið um álagninguna, beint samhengi þyrfti hins vegar að vera fyrir hendi milli fjárhæðar gjalds og kostnaðar við þjónustuna.

Gjaldið undir raunkostnaði

„Fjárhæðin verður einnig að byggjast á traustum útreikningi, en þó hefur verið litið svo á að sé ekki hægt að sérgreina nákvæmlega ákveðna kostnaðarliði, sé heimilt að byggja þá á skynsamlegri áætlun. Sá sem greiðir þjónustugjöld getur hins vegar almennt ekki krafist þess að sá kostnaður sem hlýst af því að veita þjónustuna sé reiknaður nákvæmlega út heldur er heimilt að haga gjaldtöku svo að um sé að ræða jafnaðargjald,“ segir í úrskurðinum.

Tæki gjaldið mið af kostnaðaráætlun sveitarfélagsins fyrir sorphirðu og hefði verið undir raunkostnaði síðustu ár. Úrskurðaði nefndin því að álagning gjaldsins á kæranda væri lögmæt og skyldi standa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka