Gular viðvaranir á morgun

Gul viðvörun tekur gildi á morgun víða um land.
Gul viðvörun tekur gildi á morgun víða um land. Kort/Veðurstofa Íslands

Gular viðvaranir taka gildi á morgun við Faxaflóa, Breiðafjörð, á höfuðborgarsvæðinu og miðhálendinu. Viðvarirnar gilda allan daginn, en varasamt getur verið að ferðast á þessum tíma, sérstaklega fyrir húsbíla og fellihýsi. Veðurstofa biður fólk um að passa upp á garðtæki og lausamuni sem gætu fokið.

Á höfuðborgarsvæðinu er búist við suðaustan átt 13-18 m/s og rigningu. Við Faxaflóa verður 13-20 m/s og rigning og það verður hvassast í vindstrengjum við fjöll. Við Breiðafjörð má búast við suðaustan átt 13-23 m/s og rigningu. Á miðhálendinu má búast 15-25 m/s og rigningu.

Á morgun er spáð hvassri austanátt á vestanverðu landinu og rigningu sem mun teygja sig víða um landið. Gæti verið 8-13 metrar á sekúndu víða um landið á laugardaginn.

„Á norðanverðu landinu gæti hitastig farið upp í 20 þegar best lætur,“ segir Teitur Arason, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands um spána fyrir laugardaginn.

Um helgina ætti að vera áframhaldandi suðaustanátt. Skýjað á sunnanverðu landinu og smávegis væta. Hitastig gæti verið í kringum 10-15 stig, en besta veðrið verður á Norðausturlandinu.

Sunnudagurinn lítur best út fyrir höfuðborgarsvæðið, vindurinn gefur eftir og eitthvað sést til sólar en skýjað með köflum að sögn Teits.

Á mánudegi og þriðjudegi er búist við að það verði hæg breytileg átt. Skýjað með köflum á landinu og sums staðar dálítil væta. Hiti í kringum 7 til 16 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert