Minna kynlíf, takk

Valgerður Benediktsdóttir og Stella Soffía Jóhannesdóttir hjá umboðsskrifstofunni Reykjavík Literary Agency, sem kynnir íslenskar bækur erlendis, segja að iðulega sé bókum breytt að einhverju leyti fyrir erlenda útgáfu, ný kápa hönnuð eða smátrðium breytt, en stundum getur kynlíf verið útgefanda þyrnir í augum.

Valgerður segir að útgefendur ytra velji yfirleitt nýjar kápur á sínar útgáfur og reyni þá gjarnan að gefa þeim íslenskara yfirbragð. „Þegar Mýrin kom út, fyrsta bókin eftir Arnald sem gefin var út í Þýskalandi, fengum við allt að því taugaáfall þegar við sáum kápuna á þýsku útgáfunni því það var Byggðasafnið í Skógum sem skreytti kápuna.“

Ekki er bara að útgefendur ytra breyti kápum bóka, heldur kemur og fyrir að þeir vilji breyta meira, staðfæra einhver atriði eða jafnvel taka eitthvað út, til að mynda kynlíf. „Kápa er mjög skýrt dæmi um breytingar sem eru skiljanlegar því það er verið að selja vöru og hún verður að henta fyrir markaðinn og líta rétt út í auglýsingum, í Þýskalandi eru það ekki bara burstabæirnir, heldur eru það líka ótal bensínstöðvar sem hafa ratað á bókarkápur,“ segir Stella, „en það getur líka verið eitthvað annað, alls konar smávægileg atriði sem eru meira ritstjórnarlegs eðlis.“ „Það má taka eitt dæmi,“ segir Valgerður, „um glæpasagnahöfund sem gefinn er út í Bretlandi. Breski útgefandinn vildi tóna aðeins niður kynlífið en þegar við spurðum franskan útgefanda sama höfundar hvað henni fyndist um kynlífið nuddaði hún saman höndum og sagði: Því meira, því betra.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert