Þarf að greiða ríkissjóði 118,5 milljónir

Maðurinn þarf að greiða ríkissjóði um 118,5 milljónir.
Maðurinn þarf að greiða ríkissjóði um 118,5 milljónir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Héraðsdómur Reykjaness hefur dæmt Giedrius Mockus í tólf mánaða skilorðsbundið fangelsi vegna meiriháttar skattalagabrots. Þá ber honum að greiða ríkissjóði sekt, sem nemur rúmum 118,5 milljónum króna, innan fjögurra vikna frá dómsbirtingu, annars þarf hann að sæta fangelsi í 360 daga.

Giedrius var ákærður fyrir að hafa, sem stjórnarmaður og framkvæmdastjóri með prókúru einkahlutafélagsins Grandaverks, staðið skil á efnislega röngum virðisaukaskattsskýrslum fyrir uppgjörstímabilin nóvember-desember rekstrarárin 2017, 2018, 2019 og 2020 og fyrir að hafa eigi staðið skil á virðisaukaskatti sem innheimtur var, eða innheimta bar, í starfseminni á þessu tímabili og standa ríkissjóði skil á. 

Alls var um að ræða virðisaukaskatt sem nam tæpum 60 milljónum.

Giedrius neitaði sök og hafnaði því að þessi háttsemi væri refsiverð. Þá gerði hann engar athugasemdir við fjárhæðir sem voru tilgreindar í ákæru.

Benti Giedrius á skyldu sína

Í dómnum kemur fram að Giedrius hafi borið skylda til að gefa út sölureikninga fyrir allri útseldri þjónustu hvers mánaðar, innheimta virðisaukaskatt og standa skil á honum sérhvert uppgjörstímabili.

Þá hafi Giedrius gert samkomulag við annað einkahlutafélag um að gefa ekki út sölureikninga jafnóðum og gera margra ára verk upp við verklok. Dómurinn segir það stangast fullkomlega á við lög.

Málið fór fyirr Héraðsdóm Reykjaness.
Málið fór fyirr Héraðsdóm Reykjaness. mbl.is/Hákon

Það kom fram í skýrslu Giedrius fyrir dómi að það hafi reynst erfiðleikum bundið að fá samningsaðila til að greiða reikninga á réttum tíma og því hefði verið samið um að félagið greiddi inn á viðskiptareikning hjá Grandaverki ehf. til að unnt yrði að greiða laun. Dómurinn taldi trúverðugt að þetta hafi verið ástæða fyrirkomulagsins. Hins vegar segir dómurinn það hafa verið á ábyrgð Giedrius að hafa ekki gefið út rétta sölureikninga og þar með ekki innheimt eða staðið ríkissjóði skil á virðisaukaskatti sem bar að innheimta í starfsemi Grandaverks ehf.

Vitni, sem sá um bókhald og gerð virðisaukaskattsskýrslna fyrir Giedrius, bar fyrir dómi að hann hefði gert Giedrius grein fyrir skyldu hans til að gefa út sölureikninga jafnóðum og vinnan var innt af hendi.

Því taldi dómurinn sannað að Giedrius hafði haft ásetning til skattalagabrots. Dómurinn segir hafið yfir skynsamlegan vafa og þar með sannað að Giedrius hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum var gefin að sök í ákæru. 

Ríkissjóður greiðir 1/3 hluta

Auk þess að þurfa sæta fangelsisrefsingu og borga sekt til ríkissjóðs þarf Giedrius að greiða 2/3 hluta málsvarnarlauna verjanda síns, samtals 859.733 krónur, en ríkissjóður þarf að greiða 1/3 hluta, að fjárhæð 429.867 krónur.

Við upphaf aðalmeðferðar féll ákæruvaldið frá kafla B í ákæru er varðaði persónuleg skattskil Giedrius. Ríkissjóður var því látinn greiða 1/3 hluta sakarkostnaðs.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert