Tvisvar ekið á manninn sem lést – annar stakk af

Banaslysið átti sér stað við Höfðabakka.
Banaslysið átti sér stað við Höfðabakka. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Í skýrslu Rannsóknarnefndar samgönguslysa um banaslys sem varð við Höfðabakka í Reykjavík þann 10. desember 2022 kemur fram að tveir bílar hafi ekið á karlmann á fimmtugsaldri sem lést og að ökumaður bifreiðarinnar sem ók á hann í fyrra skiptið hafi ekið af vettvangi án þess að tilkynna um atvikið. 

Í samantekt skýrslunnar um málið segir að gangandi vegfarandi hafi þverað Höfðabakka rétt sunnan við biðstöð strætisvagna á móts við Árbæjarsafn. Á sama tíma hafi bifreið verið ekið Höfðabakka til suðurs og á gangandi vegfarandann og hafi ökumaðurinn ekið af vettvangi án þess að tilkynna um atvikið. Vegfarandinn lá á eystri akrein Höfðabakka. Engin vitni að slysinu hafa gefið sig fram.

Til vinstri er yfirlitsmynd sem sýnir akstursstefnu bifreiðanna í fyrra …
Til vinstri er yfirlitsmynd sem sýnir akstursstefnu bifreiðanna í fyrra slysi (rauð ör) og seinna slysi (blá ör). Myndin til hægri er yfirlit af slysstað þar sem horft er til norðurs. Ljósmyndir/RNSA

Stuttu síðar var Suzuki-fólksbifreið ekið Höfðabakka til norðurs. Þegar ökumaður bifreiðarinnar kom auga á vegfarandann liggjandi á götunni, sveigði hann til vinstri en náði ekki að forðast árekstur við vegfarandann. Á vestari akrein, með akstursátt til suðurs Höfðabakka, var Toyota-fólksbifreið á litlum hraða og lenti á Suzuki-bifreiðin á hlið hennar þegar henni var beygt frá vegfarandanum.

Lést af völdum fjöláverka

Vegfarandinn sem ekið var á lést á Landspítala seinna um nóttina af völdum fjöláverka. Ökumaður Suzuki-bifreiðarinnar slasaðist ekki en ökumaður Toyota-bifreiðarinnar hlaut smávægilega áverka. Báðir ökumennirnir voru í bílbelti.

Fram kemur í skýrslunni að niðurstaða úr áfengis-og lyfjarannsókn á ökumanni Suzuki-bifreiðarinnar hafi verið neikvæð en niðurstaða áfengisrannsóknar á gangandi vegfarandanum hafi verið jákvæð.

Samkvæmt upptöku úr mælaborðsmyndavél Suzuki-bifreiðarinnar var hraði hennar 74 km/klst skömmu fyrir slysið. Þegar slysið varð hafði orðið hraðaminnkun en samkvæmt GPS-mældum hraða í mælaborðsmyndavél var bifreiðinni ekið á 70 km/klst hraða á vegfarandann.

Yfirlitsmynd sýnir leið og ætlaða stefnu vegfarandans. Á leið hans …
Yfirlitsmynd sýnir leið og ætlaða stefnu vegfarandans. Á leið hans voru fjögur undirgöng og ein göngubrú. Slysstaður er merktur inn á myndina. Ljósmyndir/RNSA

Í krufningarrannsókn kom fram áverki á hægri lærlegg vegfarandans sem sýni að ekið hafi verið á hann standandi. Samkvæmt rannsókn samræmist sá áverki ekki þeim áverkum sem hann hlaut þegar ekið var á hann liggjandi á götunni.

Áverkar vegfarandans sýndu að búið hafi verið að aka á hægri lærlegg hans þegar hann var standandi áður en Suzuki-bifreiðinni var ekið á hann liggjandi í götunni.

Í niðurstöðum um meginorsök slyssins segir:

„Í krufningarrannsókn kom fram áverki á hægri lærlegg sem er í samræmi við að ekið hafi verið á vegfarandann standandi, og sennilega á gangi yfir Höfðabakka, skömmu áður en Suzuki bifreiðinni var ekið á hann. Af þeim orsökum lá vegfarandinn slasaður á miðri eystri akreininni þegar ekið var á hann í seinna skiptið.“

Þar segir einnig að ökumaður Suzuki-bifreiðarinnar hafi ekið um 14 km/klst yfir leyfðum hámarkshraða þegar slysið varð og hafi því haft skemmri tíma en ella til að bregðast við þegar hann veitti vegfarandanum athygli.

Þá kemur fram í skýrslunni að vegfarandinn hafi farið áleiðis yfir Höfðabakka en ekki öruggari leið í gegnum undirgöng sem hann hafði áður almennt notað.

Skýrsla rannsóknarnefndar samgönguslysa

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert