Björgólfur Thor greiðir milljarð í sáttagreiðslu

Björgólfur Thor Björgólfsson hefur lokið fimm dómsmálum gegn sér með …
Björgólfur Thor Björgólfsson hefur lokið fimm dómsmálum gegn sér með sáttagreiðslu upp á rúmlega milljarð.

Fjárfestirinn Björgólfur Thor Björgólfsson hefur gert samkomulag við nokkra fyrrverandi hluthafa Landsbanka Íslands og mun hann greiða  þeim rúmlega einn milljarð í sáttagreiðslu vegna málaferla sem hafa verið til meðferðar fyrir dómstólum hér á landi um langt skeið. Hins vegar er tekið fram að engin greiðsla muni fara til félaga sem tengjast Róberti Wessman, fyrrverandi samstarfsmanni Björgólfs, en andað hefur köldu á milli þeirra um þó nokkurt skeið.

Málið á uppruna sinn árið 2011 þegar auglýst var í dagblöðum eftir þátttöku hluthafa bankans í hópmálsókn gegn Björgólfi Thor, en Ólafur Kristinsson, lögmaður og hlutabréfaeigandi var skráður fyrir auglýsingunni. Vilhjálmur Bjarnason, fjárfestir og fyrrverandi þingmaður, kom einnig að málinu meðal annars með beiðni um skýrslutökur fyrir dómi til öflunar á sönnunargögnum.

Samkomulagið sem nú hefur verið fallist á er við Fiskveiðahlutafélagið Venus hf., Hval hf. og þrjú hópmálsóknarfélög hluthafa Landsbanka Íslands.

Félög Róberts Wessman undanskilin

Í tilkynningu frá Novator, fjárfestingafélagi Björgólfs Thors, er tekið fram að sáttagreiðslan nemi samtals 1.050 milljónum króna sé málunum þar með lokið. „Þá er liður í samkomulagi aðila að Urriðahæð ehf., félag undir yfirráðum Róberts Wessman, eða félög sem honum tengjast fá engan hlut í þeirri greiðslu. Sérstaklega er tiltekið í sáttinni að í þessari greiðslu og samkomulagi um sáttina sé engin viðurkenning fólgin af hálfu Björgólfs Thors á sök eða bótaábyrgð,“ segir í tilkynningunni.

Töldu Björgólf Thor hafa brotið af sér

Björgólfur Thor átti Samson eignarhaldsfélag ásamt föður sínum, Björgólfi Guðmundssyni, en félagið var stærsti hluthafi bankans áður en Fjármálaeftirlitið tók bankann yfir 7. október 2008. Fyrrverandi hluthafar bankans töldu að fram væru komin gögn sem sýndu að Björgólfur Thor hefði með saknæmum hætti komið í veg fyrir að hluthafar bankans hafi á sínum tíma fengið upplýsingar um umfangsmiklar lánveitingar bankans sem tengdust honum. Þá hafi hann brotið gegn reglum um yfirtökuskyldu eftir að Samson eignarhaldsfélag hf. náði yfirráðum yfir Landsbankanum.

Málin hafa þvælst fram og aftur um dómkerfið. Vilhjálmur lagði upphaflega fram beiðnina um skýrslutökur árið 2012 og gengu sjö dómar í Hæstarétti um málið til að hægt væri að halda skýrslutökurnar. Samhliða því voru rekin mál til gagnaöflunar frá slitastjórnum Landsbanka Íslands og árið 2015 var svo höfðað hópmál gegn Björgólfi Thor til viðurkenningar á bótaskyldu.

Upp og niður dómskerfið í fjölda ára

Í tilkynningunni er framvinda málanna fyrir dómstólum rakin nánar, en þar kemur fram að þátttakendur í málsókninni hafi verið um 270 einstaklingar og félög.  Var því máli vísaði því frá dómi af Hæstarétti árið 2016.

Aftur voru hins vegar höfðuð mál sama ár og Hæstiréttur vísaði málunum frá og hafa nú náðst sættir við fimm þessara félaga. Höfðu málin frá árinu 2016 gengið upp og niður í dómskerfinu.

Þeim var í fyrstu vísað frá en Hæstiréttur snéri þeirri niðurstöðu við. Síðan var sýknað vegna fyrningar í málum Fiskveiðahlutafélagsins Venusar hf. og Hvals hf. í héraðsdómi og Landsrétti en Hæstiréttur ómerkti þá niðurstöðu og vísaði málinu aftur til héraðsdóms.

Ágreiningur um öflun gagna og skýrslutökur hefur ítrekað komið til úrskurðar í héraðsdómi og Landsrétti. Eins hefur ágreiningur um hæfi dómenda í málinu ítrekað komið til úrskurðar á öllum dómstigum. Málin eru nú til meðferðar í héraðsdómi og leit að sérfróðum meðdómanda hefur staðið yfir um nokkurt skeið í kjölfar þess að Landsréttur úrskurðaði á árinu 2023 um skort á hæfi manns sem hafði verið tilnefndur.

Ekki verður þörf á að finna þá sérfróðu meðdómara í málum þessara fimm félaga nú þegar sátt hefur náðst.

Kristján Loftsson, annar eiganda Fiskveiðihlutafélagsins Venusar og stærsti eigandi Hvals.
Kristján Loftsson, annar eiganda Fiskveiðihlutafélagsins Venusar og stærsti eigandi Hvals. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Þjóðþrifaverk að binda enda á þessa lönguvitleysu“

Í tilkynningunni er haft eftir Jóhannesi Bjarna Björnssyni, lögmanni félaganna fimm, að umbjóðendur hans séu ánægðir með málalokin og að sátt hafi náðst.

Haft er eftir Björgólfi Thor að hann hafi talið nauðsynlegt að ljúka málinu þar sem það gæti tekið mörg ár í viðbót. „Þrátt fyrir að skuldir Landsbankans, þar með talið Icesave, hafi verið greiddar að fullu og sjálfur hafi ég fyrir löngu lokið uppgjöri skulda minna við Landsbankann og aðra, hefur þetta mál velkst um í dómskerfinu í tólf ár. Um er að ræða eitt flóknasta dómsmál sem komið hefur fyrir íslenska dómstóla sem hefði auðveldlega getað teygst áfram í sex ár til viðbótar; með tilheyrandi kostnaði og óþægindum. Mat ég það því sem þjóðþrifaverk að binda enda á þessa lönguvitleysu.“

Ítrekar Björgólfur að engin sök eða bótaskylda sé viðurkennd í málinu. „Tíma mínum og íslenskra dómstóla er betur varið í annað en endalausar deilur um eldgamalt mál og fannst mér því rétt að ljúka þessum málum núna, þótt ég viðurkenni enga sök eða bótaskyldu og hafi mótmælt öllum ávirðingum með gildum rökum.“

Fiskveiðahlutafélagið Venus er í eigu þeirra Kristjáns og Birnu Loftsbarna, en félagið er jafnframt stærsti hluthafinn í Hval hf. með 42,33% hlut. Þá á Kristján einnig 11,37% hlut í Hval í eigin nafni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert