Forsetaframbjóðandi í samstarfi við fyrirtæki

Ásdís Rán lofar partýi á Bessastöðum.
Ásdís Rán lofar partýi á Bessastöðum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ásdís Rán Gunnarsdóttir forsetaframbjóðandi er komin í samstarf við verslun sem selur partývörur.

Í auglýsingum sem eru í birtingu á samfélagsmiðlum auglýsir Ásdís Rán vörur fyrirtækisins og með því birtast tvö slagorð sem vísa til forsetaembættisins.

Annars vegar mynd þar sem Ásdís Rán segir að hún þurfi enga utanríkisstefnu og hins vegar þar sem hún segist koma til dyranna eins og hún er klædd.

Lofar partýi á Bessastöðum

Ásdís Rán staðfestir í samtali við mbl.is að hún sé í samstarfi við fyrirtækið.

„Ég er andlit auglýsingaherferðarinnar og alveg eins og fyrirsæta eða íþróttamaður þá er ég forsetaframbjóðandi að auglýsa þessa vöru og er andlit fyrirtækisins,“ segir Ásdís Rán.

Ásdís Rán auglýsir partývörur með slagorðum sem eiga sér skírskotun …
Ásdís Rán auglýsir partývörur með slagorðum sem eiga sér skírskotun í forsetaembættið.

Hún segir samstarfið í og með til þess fallið að vekja meiri athygli á nafni sínu í aðdraganda kosninga.

Og þú lofar partý á Bessastöðum ef miðað er við auglýsinguna?

„Já ég vil gera það sem best, þetta gestgjafahlutverk á Bessastöðum. Stærsti hluti af starfi forsetans er að vera góður gestgjafi og það er staðfest frá skrifstofu forseta að það koma þúsund heimsóknir á ári til forseta. Stærsta hlutverk forseta er að mæta í boð, bæði erlendis og innanlands,“ segir Ásdís.

Kemur til dyranna eins og hún er klædd 

Nú er óvenjulegt að forsetaframbjóðandi sitji fyrir með þessum hætti í aðdraganda kosninga. Er þetta hluti af þinni ímyndarherferð um að fá kyntákn á Bessastaði?

„Þetta sýnir að ég kem til dyranna eins og ég kem klædd. Þetta lýsir í raun þeim frasa. Ég er ekkert að fela það sem ég hef gert í lífinu. Ég hef verið módel og hef setið fyrir á undirfötum eða bikiníum allt mitt líf. Ég er sátt við það sem ég hef gert í lífinu og ég er ekkert að fela það þó ég sé í forsetaframboði. Ég er með heiðarleika að leiðarljósi í mínu framboði,“ segir Ásdís Rán.

Opin fyrir frekara samstarfi 

Að sögn hennar hefur gengið hægt að safna fé fyrir framboðið.

„En það kemur inn fimm þúsund kall hér og þar. Hann er nýttur eftir bestu getu í glæsileg partý eða eitthvað skemmtilegt,“ segir Ásdís Rán.

Hún segist opin fyrir frekara samstarfi fyrir kosningarnar.

„Og líka ef fólk vill leggja inn á mig pening. Þá má það hafa samband. Það er vika í kosningar þannig að ég tek öllum framlögum með opnum örmum,“ segir Ásdís Rán.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert