Gul viðvörun – Lausamunir geta fokið

Spáð er roki og rigningu á höfuðborgarsvæðinu og víðar um …
Spáð er roki og rigningu á höfuðborgarsvæðinu og víðar um land í dag. mbl.is/Kristinn

Gul viðvörun tekur gildi á höfuðborgarsvæðinu, Faxaflóa, Breiðafirði og miðhálendinu klukkan 8 í dag. Á höfuðborgarsvæðinu er spáð 13 til 18 metrum á sekúndu og rigningu. Lausamunir geta fokið og er fólk hvatt til að sýna aðgát og ganga frá lausum munum til að forðast tjón.

Veðurspáin á landinu er á þá leið að spáð er suðaustan 13 til 20 metrum á sekúndu og rigningu eða súld. Hvassast verður í vindstrengjum vestantil á landinu. Hægari vindur verður og úrkomulítið austanlands.

Hiti verður á bilinu 7 til 15 stig, hlýjast norðaustantil.

Suðaustan 8 til 15 metrar á sekúndu verða á morgun en heldur hvassari á Snæfellsnesi. Dálítil rigning verður eða súld í flestum landshlutum en bjart með köflum norðaustanlands.

Hiti verður á bilinu 8 til 18 stig, hlýjast á Norðausturlandi.

„Allhvöss eða hvöss suðaustanátt á vestanverðu landinu í dag. Varasamt ferðaveður fyrir ökutæki sem eru viðkvæm fyrir vindi. Lausamunir geta fokið,“ segir í athugasemd veðurfræðings hjá Veðurstofu Íslands.

Veðurvefur mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert