Sló börnin sín með hleðslusnúru

Héraðsdómur Reykjaness hefur kveðið upp dóm sinn.
Héraðsdómur Reykjaness hefur kveðið upp dóm sinn. mbl.is/Hákon

Héraðsdómur Reykjaness hefur dæmt karlmann í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir brot í nánu sambandi.

Ákærunni var skipt í tvo kafla og undir hvorum þeirra voru fjórir ákæruliðir. Var maðurinn ákærður fyrir að hafa ítrekað, endurtekið og á alvarlegan hátt og sérstaklega sársaukafullan og meiðandi hátt, ógnað lífi, heilsu og velferð barnsmóður sinnar og barna þeirra þriggja með líkamlegu og andlegu ofbeldi og hótunum. Í ákæruliðunum er greint nánar frá þessari háttsemi.

Maðurinn var ákærður fyrir að hafa framið brotin frá 1. janúar 2019 til 28. febrúar 2023. Dómurinn taldi hins vegar að tímabilið frá nóvember 2022 til febrúar 14. 2023 væri það tímabil sem leggja ætti til grundvallar í málinu.

Maðurinn neitaði sök og krafðist sýknu. Í dómnum segir að framburður hans hafi einkennst af því að gera sem minnst úr atvikum.

Erfitt að stíga fram

Málið hófst vegna frásagnar yngsta barnsins, sem var þá í leikskóla. Í kjölfarið var rætt við barnsmóðurina og hin börnin. Að mati dómsins reyndist brotaþolum erfitt að stíga fram og greina frá atvikum vegna tengsla við ákærða og ungs aldurs. Segir að framburður og líkamstjáning allra brotaþola hafi borið þess skýr merki.

Barnsmóðirin vildi ekki tjá sig um eigin málefni fyrir dómi, þá vildi hún sérstaklega ekki tjá sig um tímabilið 2019–2022. Hún greindi hins vegar frá því að maðurinn hefði oft á tímabilinu janúar og febrúar 2023 slegið börnin og að hann hefði slegið hana þegar hún fór á milli til að verja börnin.  

Brotin ekki stórfelld

Dómurinn mat málið heildstætt. Ekki var fallist á alla ákæruliðina.

Taldi dómurinn sannað að maðurinn hafi á tímabilinu nóvember 2022 til febrúar 2023 beitt börnin og barnsmóður sína ofbeldi með því að hafa slegið þau með hleðslusnúru og hótað þeim. Þá hafi brotaþolar séð hann beita slíku ofbeldi gagnvart hver öðrum.  

Brotin voru heimfærð undir 1. mgr. 218. gr. b. almennra hegningarlaga, en ákæruvaldið hafði farið fram á að brotin yrðu heimfærð undir 2. mgr. sömu greinar, sem kveður á um stórfellt brot í nánu sambandi. Dómurinn taldi að ákæruvaldinu hafi ekki tekist að sanna að brotin væri stórfelld.

Maðurinn var dæmdur í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi, en auk þess þarf hann að greiða hverju barni 200 þúsund krónur. Þá þarf hann að greiða málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns 1.450.800 krónur, auk aksturskostnaðar sem nemur 32.954 krónur, og þóknun réttargæslumanns brotaþola 806.000 krónur, auk aksturskostnaðar sem nemur 21.976 krónur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert