Sló ökumann í höfuðið með bjórglasi

Lögreglan að störfum.
Lögreglan að störfum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Einn var handtekinn í miðbæ Reykjavíkur að hafa sparkað í bifreið. Þegar ökumaðurinn fór út úr bifreiðinni sló einstaklingurinn ökumanninn í höfuðið með bjórglasi.

Hálfur út úr bifreiðinni

Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu barst tilkynning um einstakling sem var sofandi í eða við bifreið í bílakjallara. Þegar lögreglan kom á staðinn til að skoða málið betur kom í ljós að einstaklingurinn var sofandi vímuefnasvefni hálfur út úr bifreiðinni. Þýfi var í kringum bifreiðina og var fátt um svör þegar einstaklingurinn var vakinn. Hann var handtekinn og er málið í rannsókn.

Veittist tvívegis að starfsmanni verslunar

Tilkynnt var um ölvaðan mann að ónáða gesti verslunar í Skeifunni. Starfsmaður skarst í leikinn og reyndi að vísa manninum út. Það fór ekki betur en svo að maðurinn veittist að starfsmanninum í tvígang. Lögreglan kom skömmu síðar á vettvang og handtók manninn. Ekki er vitað um ástand starfsmannsins, að því er segir í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu vegna verkefna frá klukkan 17 í gær til kl. 5 í morgun.

Slagsmál fyrir utan skyndibitastað

Tilkynnt var um slagsmál fyrir utan skyndibitastað í miðbæ Reykjavíkur í nótt, auk þess sem ölvuðum einstaklingi var vísað út af hóteli í miðbænum.

Tvö innbrot

Brotist var inn í verslun í hverfi 105 í Reykjavík. Þjófurinn var nýfarinn þegar lögreglan kom á vettvang og fannst ekki þrátt fyrir mikla leit. Málið er í rannsókn. Einnig var tilkynnt um þjófnað úr matvöruverslun. Málið var afgreitt á staðnum.

Þá voru þrír ökumenn stöðvaðir grunaðir um akstur undir áhrifum áfengis eða fíkniefna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert