„Það er ekki sjálfsagt að kaupa vopn“

​Á þriðja hundrað manns mætti á forsetafund Morgunblaðsins og mbl.is með Höllu Tómasdóttur á Park Inn by Radisson í Reykjanesbæ í gærkvöldi. Þetta var síðasti forsetafundurinn en í næstu viku verða haldnar forsetakappræður á vegum Morgunblaðsins og mbl.is.

Halla hef­ur verið á flugi í skoðana­könn­un­um að und­an­förnu og mun­ar núna inn­an við sex pró­sentu­stig­um á henni og Katrínu Jak­obs­dótt­ur, sem er með mesta fylgið, í skoðana­könn­un Pró­sents sem kom út á mánudag.

Halla Tómasdóttir á forsetafundi Morgunblaðsins og mbl.is í gærkvöldi í …
Halla Tómasdóttir á forsetafundi Morgunblaðsins og mbl.is í gærkvöldi í Reykjanesbæ. mbl.is/Brynjólfur Löve

Halla Tómasdóttir sagði að hún ætlaði sér að fara alla leið og var hún mjög hrærð yfir könnunum þessa dagana, en í könnun Maskínu í gær var hún í öðru sæti á eftir Katrínu.

„Nú er áætlunin að fara alla leið,“ sagði Halla en bætti seinna við:

„Ég er auðvitað hrærð og auðmjúk í senn því við erum að fara í mest spennandi forsetakosningar, allavega á minni lífstíð og sennilega okkar allra. Ég held að við eigum ekkert eftir að fara að sofa á kosningakvöld vitandi jafnvel hver úrslitin verða. Þannig blasir þetta við mér.“

Halla með stuðningsmanni á forsetafundinum.
Halla með stuðningsmanni á forsetafundinum. mbl.is/Brynjólfur Löve

Vill vera hreyfiafl

Blaðamennirnir Andrés Magnússon og Stefán Einar Stefánsson stýrðu umræðum og spurðu ýmissa spurninga sem varða Höllu og forsetaembættið. Við upphaf fundar þurfti að opna á milli rýma til að koma fleiri fundargestum að, en þetta er fjölsóttasti forsetafundurinn til þessa.

Hún segir að hún hafi ekki aðgreint sig frá öðrum frambjóðendum með því að rakka niður aðra meðframbjóðendur heldur með því að tala um sig og hvað hún stendur fyrir.

„Ég hef einlægan áhuga á að vera hreyfiafl til góðs fyrir land og þjóð,“ segir hún og útskýrir að þegar henni finnist að betur megi gera þá bretti hún upp ermar og gangi í verkið.

Opna þurfti á milli rýma til að koma öllum fundargestum …
Opna þurfti á milli rýma til að koma öllum fundargestum fyrir. mbl.is/Brynjólfur Löve

Vill alltaf taka afstöðu með friði

Halla Tómasdóttir kvaðst ekki hlynnt því að íslensk stjórnvöld styddu vopnakaup til Úkraínu, sem verst áfram gegn ólöglegri innrás Rússlands. Hún vildi frekar að Ísland fjármagnaði sáraumbúðir frá Kerecis og stoðtæki frá Össuri.

„Ég er hlynnt því að við tökum alltaf afstöðu með friði og nýtum öll okkar áhrif til þess að fara fyrir friði. Við erum í varnarbandalagi – varnarbandalagi er lykilorð – ekki sóknarbandalagi með Atlantshafsbandalaginu og það er mín skoðun að við getum verið þátttakendur í því og vestrænu samstarfi án þess að leggja fé til vopnakaupa,“ sagði Halla.

„Það er ekki sjálfsagt að kaupa vopn, það er ekki sjálfsagt og Íslendingar úti um allt land hafa tekið undir með mér,“ sagði Halla.

Stefán sagði að það þyrfti vopn til að verjast Rússum og þá sagði Halla:

„Já og það eru margar þjóðir – í rauninni allar – að skipa sér í lið í þessu stríði, í Mið-Austurlöndum, í sautján stríðum í Afríku og það eru stríð úti um allan heim. Við getum verið litla þjóðin sem lyftir grettistaki í heiminum,“ sagði hún.

Halla segir það ekki vera sjálfsagt að Ísland fjármagni vopnakaup …
Halla segir það ekki vera sjálfsagt að Ísland fjármagni vopnakaup fyrir Úkraínu. mbl.is/Brynjólfur Löve

Brennum olíu í stað þess að nýta virkjanir

Hún talaði um að það þyrfti að leiða saman ólíka hópa í samfélaginu til að komast að niðurstöðum í miklum deilumálum. Fyrir umhverfisvæna þjóð væri það ekki gott að milljónum lítra af olíu væri brennt til að tryggja rafmagn.

„Á sama tíma og við erum öll náttúruverndarsinnar þá viljum við nota græna orku og höfum gert það. En nú erum við að brenna olíu um allt land, á Vestfjörðum, á Austurlandi, í Vestmannaeyjum og víðar, og ekki verndum við náttúruna þannig. Ég komst að því á ferðum mínum um landið að samtalið um þetta er bara ekki að eiga sér stað neins staðar. Í staðinn fyrir látum við virkjanir, sem hafa verið samþykktar, ekki fá framgang af því að við erum að rífast og tosa í sundur í þessu máli eins og svo mörgum öðrum,“ sagði Halla.

„Hefur þú í alvörunni trú á því að þú sem forseti getir leitt Samtök iðnaðarins og Landvernd saman og fengið þau út af fundi með sameiginlega niðurstöðu,“ spurði Stefán.

„Stutta svarið við því er já,“ svaraði Halla.

Á þriðja hundrað manns mættu á fundinn.
Á þriðja hundrað manns mættu á fundinn. mbl.is/Brynjólfur Löve

Aldrei jafn miklir umbreytingartímar

Halla talaði um hvernig hún vildi ná þjóðinni saman um mikil deilumál og Stefán spurði hana hvort hún væri að ofmeta hlutverk forsetans í þeim efnum.

„Ég held að við höfum aldrei á okkar líftíma verið á jafn miklum umbreytingartímum eins og núna og ég hef aldrei séð jafn mörg merki þess að andleg heilsa okkar og samfélagsleg heilsa sé ekki með besta móti.

Hvort sem það hefur verið gert áður eða ekki – það hafði enginn stofnað fjármálafyrirtæki með áherslu á kvenlegri gildi þegar við stofnuðum Auði Capital – ég er bara ekki manneskja sem hallar sér aftur og segir „af því eitthvað er að og af því enginn hefur nokkurn tímann leyst það þá ætla ég ekki reyna gera mitt til þess að gera það“,“ sagði Halla.

Halla Tómasdóttir ásamt eiginmanni sínum, Birni Skúlasyni.
Halla Tómasdóttir ásamt eiginmanni sínum, Birni Skúlasyni. mbl.is/Brynjólfur Löve

Fylgisdreifingin lýsi þjóðarsálinni

Tveir álitsgjafar voru fengnir til að rýna könnun Prósents sem kom út á mánudaginn sem og stöðuna í forsetakosningunum almennt. Að sinni voru það Suðurnesjamennirnir Ingvar Eyfjörð framkvæmdastjóri Aðaltorgs ehf. og Guðný Birna Guðmundsdóttir, forseti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar.

Ingvar sagði að fylgisdreifing frambjóðenda gæfi til kynna að þjóðin væri að máta sig við þá.

„Ég held að það sem við erum að horfa á lýsi svolítið þjóðarsálinni. Við erum með embætti sem er tiltölulega óskilgreint og við höfum ákveðnar hugmyndir um hvernig við viljum sjá það, en það er einstaklingsbundið.

Ég held að fylgið útskýrist svolítið af því að við erum öll að ræða þetta og við erum að máta okkar hugmyndir við frambjóðendurna. Það eru ekki allir með það á hreinu hvað þeir vilja gera og mér finnst þetta algjörlega frábært og algjör veisla,“ sagði Ingvar.

Ingvar Eyfjörð og Guðný Birna voru sérstakir álitsgjafar á forsetafundinum …
Ingvar Eyfjörð og Guðný Birna voru sérstakir álitsgjafar á forsetafundinum og fóru yfir stöðuna í kosningabaráttunni. mbl.is/Brynjólfur Löve

Telur að Halla vinni kosningarnar

Guðný Birna sagði að kosningarnar væru gífurlega spennandi.

„Þetta er bara æsispennandi. Við erum með tólf kandídata og við erum með, leyfi ég mér að segja, rosalega mikið af flottum konum, að körlunum ólöstuðum að sjálfsögðu.

Það er sífellt að breytast, það er að hrökkva til upp og niður og það er ekki alveg marktækur munur þannig að þetta er gríðarlega spennandi. Næstu dagar verða það og það þarf að gefa allt þetta í til að klára það,“ sagði Guðný um kannanir síðustu daga.

Álitsgjafarnir voru beðnir að spá í spilin og sagði þá Guðný Birna að hún teldi að Katrín Jakobsdóttir, Halla Tómasdóttir og Halla Hrund Logadóttir myndu enda í þremur efstu sætunum, en hún gat þó ekki sagt til um það hver af þeim hún teldi að myndi bera sigur úr býtum.

Ingvar Eyfjörð taldi að Halla Tómasdóttir myndi vinna þessar forsetakosningar.

Ingvar og Guðný svöruðu ýmsum spurningum um kosningarnar frá Stefáni …
Ingvar og Guðný svöruðu ýmsum spurningum um kosningarnar frá Stefáni Einari Stefánssyni og Andrési Magnússyni. mbl.is/Brynjólfur Löve

Kappræður í næstu viku

Þetta var síðasti forsetafundurinn en Morgunblaðið hefur haldið forsetafundi á Ísafirði, Egilsstöðum, Selfossi, Akureyri og Reykjanesbæ. Voru fundirnir haldnir með þeim frambjóðendum sem mælst hafa með yfir 10% í skoðanakönnunum Prósents.

Á fimmtudaginn 30. maí verða haldnar forsetakappræður í Hádegismóum með þeim frambjóðendum sem mælast yfir 10% fylgi. Þar verður spurt spurninganna sem kjósendur leita svara við. Þetta verða kappræður sem enginn má láta fram hjá sér fara en þeim verður streymt á mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert