Álagning skattsins gerð opinber

Mynd úr safni.
Mynd úr safni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Niðurstöður álagningar einstaklinga 2024, vegna tekna árið 2023, eru tilbúnar og aðgengilegar á þjónustuvef skattsins. Inneignir verða greiddar út 31. maí og launagreiðendur fá sendar upplýsingar um skuldir til að draga af launum.

Við álagningu eru gerðir upp ofgreiddir og vangreiddir skattar vegna fyrra árs auk þess sem lögð eru á gjöld, s.s. útvarpsgjald og gjald í framkvæmdasjóð aldraðra, að því er fram kemur í tilkynningu á vef skattsins.

Inneign er lögð inn á þann bankareikning sem skráður er hjá innheimtumönnum. Ef engar upplýsingar um skráðan bankareikning liggja fyrir er hægt að skrá nýjan eða breyta fyrri skráningu á þjónustuvef skattsins.

Skuld eftir álagningu er skipt niður á sjö gjalddaga. Innheimta skulda fer í gegnum launagreiðendur. Þeim er send krafa um að draga skuld frá launum hvers mánaðar.

Þeir sem það vilja geta samið um að gera nýja greiðsluáætlun og skipta greiðslunni á lengra tímabil.

Greiðsluáætlanir eru gerðar á mínum síðum á Ísland.is, að því er fram kemur á vef skattsins.

Greiðsluáætlun er gerð til að lækka mánaðarlega greiðslubyrði en á móti kemur hærri vaxtakostnaður.

Útbúnar hafa verið stuttar leiðbeiningar um hvernig lesa megi úr álagningunni á íslensku, ensku og pólsku, sem og bæklingar á íslensku og ensku. Þessar upplýsingar má nálgast á skatturinn.is.

Vanti upplýsingar á skattframtal sem viðkomandi telur að hafi áhrif á niðurstöður álagningar getur hann kært álagninguna. Kærufrestur er til 2. september næstkomandi.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert