„Betri staða ef húsið brynni“

Hraun rann yfir íbúðarhús í Grindavík í janúar.
Hraun rann yfir íbúðarhús í Grindavík í janúar. mbl.is/Árni Sæberg

Dagmar Valsdóttir, atvinnurekandi í Grindavík, segir það hafa verið mikil vonbrigði þegar Bjarni Benediktsson forsætisráðherra tilkynnti að ríkið myndi ekki kaupa upp atvinnuhúsnæði í bænum líkt og gert var með íbúðarhúsnæði. Eigendur lítilla og meðalstórra fyrirtækja í Grindavík kalla eftir fundi með ríkisstjórninni um málið.

„Hvað haldið þið að það kosti ríkið að vera með okkur á styrkjum eða bótum í eitt, tvö eða þrjú ár? Gríðarlegu fé er varið í skýrslur, nefndir og varnargarða á meðan við sitjum hér föst með verðlausar eignir,“ segir Dagmar í samtali við Morgunblaðið.

Dagmar Valsdóttir.
Dagmar Valsdóttir. Ljósmynd/Aðsend

Hún bendir á að fjármagnið fari ekki úr landi. Eina leiðin sé að ríkið kaupi eignirnar og gefi fólki þannig tækifæri til að hefja atvinnurekstur annars staðar.

„Við erum föst með gistihúsið okkar í fasteign sem er að missa allt verðgildi. Það ríkir alger óvissa um hversu lengi þetta ástand varir og enginn veit hversu lengi ríkið þarf að greiða stuðningsbætur. Það skynsamlegasta í stöðunni er að ríkið kaupi fasteignir af litlum og meðalstórum fyrirtækjum, gefi þeim tækifæri til að standa á eigin fótum á nýjum stað og hætta að þiggja bætur,“ segir Dagmar.

Hún segir því haldið fram að allt verði gert fyrir Grindvíkinga en það sé ekki rétt.

„Ég myndi helst vilja fá fund með ríkisstjórninni, svipað og var gert hér í janúar, þannig að þau mæti okkur og svari. Við erum í þeirri sorglegu stöðu að það væri betra að húsið okkar brynni heldur en að við sitjum upp með verðlausa eign á hamfarasvæði um ófyrirsjáanlegan tíma. Við þurfum hjálp og stuðning allra Íslendinga,“ segir Dagmar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert