Ganga 111 kílómetra fyrir börnin á Gasa

Drengirnir ganga til styrktar börnum á Gasa.
Drengirnir ganga til styrktar börnum á Gasa. Ljósmynd/Facebook

Sex drengir í Réttarholtsskóla eru nú lagðir af stað í 111 kílómetra langa göngu til styrktar börnum á Gasa. Er þetta framtak hluti af lokaverefni í 10. bekk og mun gangan taka þrjá daga.

Drengirnir eru þeir Benjamín, Erik, Felix, Markús, Stefán og Óðinn.

Af hverju eru þið að fara í þessa göngu?

„Til að safna peningum fyrir börnin í Gasa og bara fólkinu í Palestínu almennt. Við höfum mikinn áhuga að ganga og skoða náttúruna og þetta er góð ástæða til þess að gera það,“ segir Stefán Hugi í samtali við mbl.is.

Drengirnir hófu göngu sína í morgun klukkan 7 frá Réttarholtsskóla og munu þeir ganga yfir Hellisheiði til Hveragerðis. Á morgun munu þeir rölta frá Hveragerði til Hagavíkur við Þingvallavatn og á mánudag ganga þeir Nesjavallaleiðina frá Hagavík upp í Réttarholtsskóla.

Búnir að safna 250 þúsund krónum

Í dag er búinn að vera mikill mótvindur sem hefur gert gönguna eilítið erfiðari en það stöðvar þá ekki og halda þeir ótrauðir áfram. Að sögn drengjanna eru þeir þegar búnir að safna um 250 þúsund krónum.

Hafið þið alltaf haft mikinn áhuga á pólitík og alþjóðamálum?

„Ekki jafn mikið og þegar við vorum yngri. En af því það er búið að vera svona mikið í gangi, og við erum búnir að sjá það í fréttum og heyra frá foreldrum, þá er eiginlega ekki hægt að vita ekki um þetta,“ segir Benjamín.

Síðan að innrás Rússlands inn í Úkraínu hófst sem og stríðið á milli hryðjuverkasamtakanna Hamas og Ísraels þá hafa þeir fylgst enn meira með fréttum.

Hægt er að nálgast upplýsingar um gönguna og styrktarleiðir á Facebook. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert