Hefði ekki hleypt Bjarna í annan ráðherrastól

Arnar Þór Jónsson, hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi héraðsdómari, segir að formleg völd forseta Íslands bjóði upp á mun meiri íhlutun í stjórnskipan landsins en forsetar lýðveldisins hafa fram til þessa kosið að beita. Sjálfsagt sé, miðað við ákvæði stjórnarskrárinnar, að forsetinn beiti sér með ákveðnari hætti, m.a. til þess að ná fram ákveðinni siðbót í íslenskum stjórnmálum.

Þetta kemur fram í ítarlegu viðtali við Arnar Þór í Spursmálum. Orðaskiptin um þetta má sjá í spilaranum hér að ofan en viðtalið við hann er einnig aðgengilegt í spilaranum neðst í þessari frétt.

Á ögurstundu

„Á ögurstundu getur forseti gripið inn í. Ólafur Jóhannesson orðaði það þannig í bók sinni um stjórnskipun Íslands að þegar það eru uppi óvenjulegar aðstæður í stjórnkerfinu á Íslandi þá er ekki hægt að gagnrýna forseta fyrir að beita því formlega valdi sem hann hefur samkvæmt stjórnarskránni. Ég tel að það séu óvenjulegar aðstæður uppi á Íslandi,“ segir Arnar.

Þegar hann er inntur eftir því með hvaða hætti þessi formlegu völd birtist vísar hann m.a. til samskipta forseta og ríkisstjórnar.

„Ég tel til dæmis að það sé býsna brýnt orðið að forseti eigi alvarleg samtöl við ráðherra, til að mynda á ríkisráðsfundi, kalli ráðherra þangað inn til þess að ræða brýnustu stjórnarmálefni Íslands. Mér sýnist ekki vanþörf á því að stuðla að einhverskonar siðbót í íslenskum stjórnmálum. Forseti gæti gert athugasemdir við að af stað fari hringekja þar sem ráðherra látist vera að bera ábyrgð á verkum sínum en setjist svo að nokkrum dögum eða vikum liðnum í annan ráðherrastól. Forseti samkvæmt stjórnarskrá skipar og veitir ráðherrum lausn frá embætti. Forseti ber að þessu leyti ábyrgð á því hvernig stjórnarfarið er í landinu ásamt ríkisstjórn.“

Þú segir að þú getir rætt þetta inni í ríkisráðinu, en ertu þá að halda því fram, af því að þú ert að vísa til Bjarna Benediktssonar …

„Og Svandísar Svavarsdóttur.“

Arnar Þór Jónsson er nýjasti gestur Stefáns Einars í Spursmálum.
Arnar Þór Jónsson er nýjasti gestur Stefáns Einars í Spursmálum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lýðveldið ekki einkafyrirtæki

Ertu að segja að þú gætir ímyndað þér að þær aðstæður kæmu upp að þú myndir neita að skipa ráðherra í embætti?

„Já, ég meina þetta. Því ég tel að þetta séu óvenjulegar aðstæður. Ég tel að stjórnmálamenn hafi of lengi umgengist í raun lýðveldið Ísland eins og að það sé einkafyrirtæki þeirra. Það eru augljóslega samgróningar milli stjórnmálaflokkanna á Íslandi. Valdið tilheyrir ekki þessu fólki. Forsetinn, sem eini þjóðkjörni maðurinn á þessum ríkisráðsfundum, þarf að gæta að hag almennings í landinu, verja okkur fyrir einhverskonar ofstjórn, ofríki og spillingu. Hann getur verið rödd heilbrigðrar skynsemi þegar svona aðstæður koma upp.“

En eins og með ráðherrana. Ef þú myndir sem forseti við þessar aðstæður segja, heyrðu félagi þú getur hætt hér sem fjármálaráðherra en þú ert ekki að fara að verða utanríkisráðherra á minni vakt, alla vega ekki strax. Þetta er bara stríðsyfirlýsing.

„Já, ég held að það sé bara allt í lagi að þetta viðnám sé veitt. Ef við ætlum að vera trú okkar stjórnarskrá okkar með öllu því sem í henni felst með „checks and balances“, þá held ég að forseti á svona stundu, bara sem dæmi, þurfi að veita raunverulegt viðnám.“

Viðtalið við Arnar Þór má nálgast í spilaranum hér fyrir neðan:

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert