Jarðgöng talin betri og líklegri kostur en stokkur

Kristján segir aðstæður til jarðgangagerðar góðar við Miklubraut.
Kristján segir aðstæður til jarðgangagerðar góðar við Miklubraut. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Í kjölfar greiningar á frumdrögum Vegagerðarinnar að framkvæmdum við Miklubraut er jarðgangagerð talin mikið vænlegri kostur en að setja brautina í stokk. Í stað 1,8 kílómetra langs stokks kæmu þá 2,8 kílómetra löng göng.

„Það er alveg klárt að jarðgangnalausnin kemur mun betur út, bara sjálft mannvirkið og hvernig það virkar hvað varðar þá umferðartafir of umferðaröryggi. Svo sjáum við líka að varðandi framkvæmdina sjálfa, sem er kannski augljósi parturinn af þessu, þá er náttúrulega alveg rosalega mikið rask sem fylgir stokkaframkvæmdum og við erum þarna að grafa upp veginn í núverandi vegstæði Miklubrautar og það gefur náttúrulega augaleið að hefur mjög mikil áhrif á veituinnviði og alla innviði í jörðinni og nálæga byggð,“ segir Kristján Árni Kristjánsson,  samgönguverkfræðingur og verkefnastjóri á höfuðborgarsvæði Vegagerðarinnar í samtali við mbl.is.

Samfélagslegur ábati margfalt meiri

Kristján segir það töluverða áskorun að leysa hvernig umferð skuli háttað á framkvæmdatíma og koma fyrir hjáleiðum. 

„Mögulega gætum við ekki einu sinni verið með tveir plús tveir alla leiðina. Stór partur af þessu líka er að meðferðarkjarninn verður nú trúlega tilbúinn þarna þegar við hefjum framkvæmdir, það er nú eitt, og þá er kominn enn stærri vinnustaður á Landspítala og það þarf náttúrulega að tryggja aðgengi allra að spítalanum,“ segir Kristján. 

Hann segir vegstæðið vestan við nýja Landspítalann vera þröngt. 

„En svo þegar við erum í jarðgöngum þá náttúrulega erum við mun dýpra og erum þá að forðast þessar lagnir í jörðinni og núverandi götur geta bara haldið sér nokkurn veginn eins og þær eru og þá værum við að tryggja þessar hjáleiðir mjög vel,“ segir Kristján.

Lokaákvörðun hafi þó ekki verið tekin en kæmu þá 2,8 kílómetra löng göng í stað 1,8 kílómetra langs stokks.

„Út frá okkar greiningum í frumdragavinnunni þá er nokkuð ljóst að þessi kostur er betri.  [...] Þó að jarðgöngin væru mögulega eitthvað aðeins dýrari en stokkaframkvæmdin að þá er bara svo mikil áhætta líka sem fylgir svona stokkaframkvæmd. Það er meiri óvissa í svoleiðis framkvæmd. Það er meira sem getur komið upp á í raun þegar þú ferð að grafa alla götuna þarna í gegn og samfélagslegi kostnaðurinn er líka bara mikill hvað varðar, eins og til dæmis, þessi umferðarmál. Þá gæti maður trúað að það myndi ekki vera langt bil þarna á milli hvað varðar kostnaðinn á milli jarðganga og stokkalausnar og samfélagslegur ábati, höfum við séð líka, er bara margfalt meiri í jarðgangalausnum. En eins og ég segi, það er ekki búið að taka endanlega ákvörðun um þetta og það verður þá bara gert núna á næstu stigum. Við erum að klára frumdragahönnun núna þar sem við erum í þessari valkostagreiningu og erum náttúrulega búin að greina alla þætti þessara mannvirkja,“ segir Kristján.

Leysir tafir og öryggismál vel

Rannsóknir hafi leitt í ljós að aðstæður séu mjög góðar til jarðgangagerðar en framkvæmdirnar séu einnig þægilegri vegna þess að þær séu ekki jafn háðar skipulagsáætlunum borgarinnar, einfaldlega vegna dýptar.

„Í raun besta lausn væri þá að vera með gangnatengingar líka að og frá Kringlumýrarbraut. Þá geturðu keyrt inn í göngin í rauninni af Kringlumýrarbraut og farið þá til vesturs í göngin og svo úr vestri og inn á Kringlumýrarbraut. Það er mjög góð lausn líka og leysir í rauninni umferðartafir og öll umferðaröryggismál mjög vel,“ segir Kristján. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert