Verslunarskólanemar í bobba

Verslunarskólanemum á leið til Króatíu í útskriftarferð var settur stóllinn …
Verslunarskólanemum á leið til Króatíu í útskriftarferð var settur stóllinn fyrir dyrnar í morgun þegar matarflutningabifreið var ekið á hurð flugvélar sem ætlað var að flytja þá til Króatíu. Íhlaupavél er á leið frá Kaupmannahöfn og málinu er líklega bjargað. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Það varð óhapp í morgun þegar starfsmaður á vellinum keyrði á vélina okkar,“ segir Sara Jóhannesdóttir, sölustjóri ferðaskrifstofunnar Indígó, í samtali við mbl.is um óhapp sem varð á Keflavíkurflugvelli í morgun þegar matarbifreið Newrest var ekið á hurð flugvélar flugfélagsins Neos.

Var vélin á leið með útskriftarhóp frá Verslunarskóla Íslands í ferð til Króatíu og segir Sara að fyrst hafi verið útlit fyrir að hægt væri að gera við hurðina á staðnum og koma hópnum í loftið.

Vísir greindi fyrst frá.

Bjargaðist fyrir kraftaverk

„Svo kemur í ljós að það er ekki hægt og þá fer hörkuvinna í gang hér hjá okkur við að leita að nýrri vél og fyrir eitthvert kraftaverk tókst að redda því og sú vél er á leið frá Kaupmannahöfn í þessum töluðum orðum. Hópurinn er því núna að fara að innrita sig í þessa vél svo þetta fer allt saman að bjargast,“ segir sölustjórinn enn fremur.

Segir hún einhverra klukkustunda seinkun eðlilega verða á komunni til Króatíu þar sem nýstúdentarnir hyggist dveljast í tíu daga.

Aðspurð segir Sara Indígó þjónusta megnið af framhaldsskólum landsins nú í ár með útskriftarferðir sem segja má rótgróna hefð hérlendra skóla eftir áratuga framkvæmd en Indígó leggur áherslu á skólatengdar ferðir og sinnir þar hvort tveggja framhalds- og háskólum auk þess að bjóða upp á menntaferðir fyrir kennara og leikskóla.

„Þetta er í raun keyrsla allt árið þótt framhaldsskólarnir séu mest í byrjun og lok sumars en menntaferðirnar eru allt árið um kring,“ segir Sara Jóhannesdóttir hjá Indígó að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert