Ekki gert ráð fyrir nýjum þyrlupalli

Þyrlur flytja oft sjúklinga sem eru í bráðri hættu.
Þyrlur flytja oft sjúklinga sem eru í bráðri hættu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ekki er gert ráð fyrir nýjum þyrlupalli, hvort sem er á jörðu eða á þaki, í neinum drögum nýrrar viðbyggingar við Sjúkrahúsið á Akureyri, SAk, sem reisa á sunnan spítalans á lóðinni þar sem núverandi þyrlupallur er. Á sama tíma eru engin áform um þyrlupall á Landspítalanum við Hringbraut, heldur skuli hann vera í Nauthólsvík.

Hildigunnur Svavarsdóttir, forstjóri SAk, segir í samtali við Morgunblaðið að framkvæmdastjórn SAk hafi sammælst um að Akureyrarflugvöllur geti, eins og hingað til, sinnt sjúkraflutningum Sjúkrahússins á Akureyri.

„Við erum í raun ekki með formlegan þyrlupall hér við sjúkrahúsið, hann er hérna, hann hefur bara aldrei verið viðurkenndur sem slíkur,“ segir Hildigunnur og bætir við að það sé ekkert sem segi að sjúkrahúsið eigi að hafa þyrlupall.

Spurð hvort þetta sé lokaniðurstaðan svarar Hildigunnur að svo sé þar til annað komi í ljós.

Hver mínúta skiptir máli

Viðar Magnússon þyrlulæknir segir í samtali við blaðið að tilgangur sjúkraþyrla sé að stytta tímann frá slysi og þar til komið er inn á sjúkrahús. Það sé því að hans mati ekki skref í rétta átt að ekki sé gert ráð fyrir þyrlupalli við stærstu sjúkrahús landsins.

Þá segir Viðar að óviðunandi sé að lenda með sjúkling í lífshættu á flugvelli, ferja hann úr þyrlunni í sjúkrabíl og keyra með hann á sjúkrahús, þar sem það taki um 15 til 25 mínútur. „Hver mínúta skiptir máli, sérstaklega þegar sjúklingurinn má engan tíma missa,“ segir Viðar.

Viðar minnir á mikilvægi þess að þyrlupallur sé til staðar við sjúkrahús, hvort sem er í Reykjavík eða á Akureyri. Með því fyrirkomulagi taki það einungis tvær til fimm mínútur að ferja sjúkling úr þyrlu og inn á sjúkrahúsið.

„Að sneiða fram hjá þessum þætti þjónustu er alveg út í hött,“ segir Viðar. Hann bætir við að vissulega sé ekki langt frá flugvöllunum að sjúkrahúsunum en það að þurfa að færa sjúkling úr einu farartæki í annað sé viðbótarflækjustig og viðbótartími sem sjúklingur megi ekki missa. Þá sé það einnig kostnaðarsamt.

„Greinilegt er að þessar ákvarðanir eru teknar án samráðs við þá sem þekkja best til,“ segir Viðar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert