„Það er enginn að setja þennan hóp í forgang“

Katarzyna Kubiś stofnaði stuðningshóp fyrir erlenda foreldra með fötluð börn
Katarzyna Kubiś stofnaði stuðningshóp fyrir erlenda foreldra með fötluð börn Ljósmynd/Aðsend

Katarzyna Kubiś er verkefnastjóri í málefnum fatlaðra barna af erlendum uppruna hjá Þroskahjálp og er lærð sem þroskaþjálfi. Hún er af pólskum uppruna en flutti til Íslands þegar hún var 19 ára gömul og hefur búið hér á landi í 16 ár.

Katarzyna er móðir barns með fötlun. Hún segist hafa átt erfitt með að finna upplýsingar sem hentuðu henni og sínu barni. Þar sem að hún fann ekkert stofnaði hún hóp á Facebook fyrir erlenda foreldra með fötluð börn. Nú eru í kringum 300 í hópnum. 

Hún sér um hópinn mestmegis ein en fær hjálp frá einum í hópnum sem tekur við keflinu inn á milli þar sem það getur verið erfitt að sjá um stóran hóp að sögn Katarzynu.

Reynslan sem hjálpar

„Ég er í hópi innflytjenda og ég er sjálf foreldri fatlaðs barns, það er fyrst og fremst kannski ekki menntun mín heldur reynsla sem hjálpar mér við að vera talsmaður þennan hóps” segir Katarzyna í viðtali við mbl.is.

Katarzyna vill að það sé hægt að hittast og ræða saman mánaðarlega.

„Aðalmarkmið hópsins er að leyfa foreldrum að hittast á einum stað og tala saman um það sem þeim liggur á hjarta.” segir Katarzyna. „Ef þú færð ekki þann stuðning sem þú þarft þá leitar maður í óformlegan stuðning.“

Hefur sótt um styrki en fékk höfnun

Hún sótti tvisvar um styrk á árinu, bæði frá þróunarsjóði innflytjenda og Öryrkjabandalagi Íslands, en hún fékk höfnun frá báðum stofnunum. 

„Þetta eru ekki stórar upphæðir, við viljum bara fá húsnæði til þess að geta hist á mánaðar fresti,” segir Katarzyna.

Katarzyna segir að draumurinn sé einnig að hafa fjármagn til þess að geta fengið sérfræðinga til þess að vera með fyrirlestra á fundum svo hægt sé að veita foreldrum meiri fræðslu um stöðu og aðstæður barna þeirra.

Að sögn Katarzynu var þessi hópur myndaður fyrir pólska foreldra en fólk frá ýmsum löndum eins og Bandaríkjunum og Spáni sem er búsett á Íslandi hefur haft samband við hana í leit af upplýsingum.

„Það er erfitt að synda í kerfinu ef þú ert ekki íslenskumælandi.” segir Katarzyna.

Slæmt ástand

Á hinum Norðurlöndununum er betur haldið utan um foreldra með fötluð börn þar sem samtökin þar fá styrki frá ríkinu. Þar getur fólk mætt á fundi til þess að spjalla eða leita sér ráða og það er þörf á því sama hér á Íslandi, segir Katarzyna.

Katarzyna var með erindi á kynjaþingi Kvenréttindafélagsins um helgina þar sem hún talaði um að ástandið væri mjög slæmt hér á Íslandi fyrir foreldra sem eru af erlendum uppruna og eru að ala upp fötluð börn þar sem skortur væri á samtökum og stuðningshópum sem þau ættu að geta leitað í ef á reynir. 

„Mín reynsla er sú að þetta er mjög jaðarsettur hópur, það er enginn að setja þennan hóp í forgang,” segir Katarzyna.

„Við erum með frábæra fagaðila hér á íslandi, það eru erlendir sálfræðingar, sjúkraþjálfarar og fleiri sem geta hjálpað” segir Katarzyna. 

„Tengslin eru til staðar, samtalið er til staðar en enginn samtök vilja taka þetta að sér.”

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert