Fá hjálp við að takast á við lífið eftir fangelsi

Atli Freyr Kristinsson
Atli Freyr Kristinsson Ljósmynd/Aðsend

„Við erum að reyna að efla fanga rétt eftir að þeir fara út og þegar þeir eru komnir út. Oft vantar að það sé prógram í gangi eftir að þeir koma út í svona eitt til tvö ár,“ segir Atli Freyr Kristinsson.

Hann sér um verkefnið Road to Freedom sem snýst um að valdefla og auka færni núverandi og fyrrverandi fanga.

Lokamálþing Road to Freedom, sem styrkt er af Erasmus+ menntaáætlun Evrópusambandsins, verður haldið í dag frá klukkan 16 til 18 í 12 Sporahúsinu í Holtagörðum. 

Í samtali við mbl.is segir Atli að Batahúsið, sem hann hefur unnið mikið með, hafi verið eina úrræði fanga hér áður fyrr en að alltaf megi bæta við.

Nefnir Atli að oft sé erfitt fyrir menn að takast á við lífið eftir að þeir koma úr fangelsi. Verkefnið snúi að því að finna leiðir til að efla þá í að taka stökkið inn í lífið og í það að vera samfélagsþegn.

Hófst fyrir fimm árum

Aðspurður segir hann verkefnið hafa komið til fyrir rúmum fimm árum síðan. 

„Ég er búinn að vera vinna með föngum og við fórum á fund með Fangelsismálastofnun fyrir rúmum fimm árum síðan og ákváðum að koma með eitthvað meira prógram, sérstaklega inn á edrú-ganginn í fangelsinu, þar sem fólk var tilbúið til að breytast og tilbúið að gera hluti og læra. Við byrjuðum að mæta þangað á hverjum mánudegi í nokkur ár,“ segir Atli og bætir við:

„Við elduðum með þeim, við borðuðum með þeim, tókum fund með þeim og síðan vorum við bara að spjalla. Þannig við vorum í þrjá til fjóra tíma að mynda tengingu og ég tók eftir því hvað það munaði miklu, vegna þess að margir af þessum strákum eru enn þá edrú og eru að hjálpa öðrum strákum.“

Fangelsið á Hólmsheiði.
Fangelsið á Hólmsheiði. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Í verkefninu hefur verið notast við aðferðir sem svipa til valdeflandi markþjálfunar, sem hjálpa föngunum og fyrrverandi föngum að vera leiðtogar í sínu eigin lífi. Einnig er notast við svokallaða gloppugreiningu. Atli segir að sú aðferð hjálpi mönnum við að finna hluti í sjálfum sér sem þörf er á að laga og bæta.

Atli segir að verkefninu hafi fylgt blendnar tilfinningar. „Þetta er búið að vera rosalega gaman, rosalega erfitt og rosalega áhugavert.“

Samstarf á milli sex landa

Í verkefninu var Ísland í samstarfi við fimm önnur lönd. Noreg, Austurríki, Kýpur, Grikkland og Ítalíu, þar sem einblínt var á Sikiley. Segir Atli að Ísland og Noregur séu kominn töluvert lengra í þessum málum. Hegningarkerfi Norðurlandanna sé frábrugðnara en hin.

Nánar verður rætt um verkefnið á málþinginu í dag, sem fer eins og fyrr segir fram frá klukkan 16 til 18 í 12 Sporahúsinu.

Á málþinginu verður auk kynningar á verkefninu fjallað um nýjar nálganir í fangelsismálum á Íslandi sem byggja á áfallamiðaðri og batamiðaðri nálgun og jafningjastuðningi. Í lokin munu þátttakendur ræða og álykta um framtíðarsýn í fangelsismálum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert