„Féð er innilokað og bjargarlaust“

Samkvæmt DÍS er sauðfé innan girðingar við Grindavík. Mynd tengist …
Samkvæmt DÍS er sauðfé innan girðingar við Grindavík. Mynd tengist frétt ekki beint. mbl.is/Ásdís

Matvælastofnun (MAST) og Dýraverndunarsamband Íslands (DÍS) lýsa áhyggjum vegna sauðfjár sem enn sé nærri Grindavík.

Í tilkynningu frá MAST vegna málsins kemur fram að stofnunin hafi ítrekað beint því til dýraeigenda, lögreglu og almannavarna að ekki skyldi flytja dýr aftur til Grindavíkur eftir rýmingu. Einhverjir hafi þó farið þvert á þau fyrirmæli.

Þá greinir DÍS frá því að fregnir berist af sauðfé sem sitji nú innan girðingar bæði austan og vestan við Grindavík og óska samtökin eftir því að tafarlaust sé brugðist við og dýrunum bjargað úr hættulegum aðstæðum.

„Féð er innilokað og bjargarlaust, í sjálfheldu í Grindavík. Þeim er mikil hætta búin sökum gasmengunar og hraunflæðis (komi til þess inn í Grindavík). Einnig er það alvarlegt að féð sé á svæðinu bjargarlaust ef eina opna leiðin að Grindavík, Suðurstrandarvegur, lokast.  Dýr eru skyni gæddar verur með tilfinningar og sál, þau eru ekki hlutir og því er það ákall DÍS að þessum dýrum verði komið til bjargar. Bent skal á að skv. lögum um velferð dýra er hverjum þeim er vart verður við dýr í neyð skylt að koma þeim til bjargar,“ segir í tilkynningu DÍS.

Tilkynningu DÍS má lesa með því að smella hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert