„Grindavík hefði varla verið til eftir þennan dag“

Víðir Reynisson, sviðsstjóri almannavarna. Myndin er samsett.
Víðir Reynisson, sviðsstjóri almannavarna. Myndin er samsett. mbl.is/Óttar, Eggert Jóhannesson

Suðurstrandarvegur stendur einn eftir opinn til Grindavíkur. Líklega verður ljóst um miðnætti í kvöld hvort vegurinn lokist. Hægt verður að fara sjóleiðina ef allt lokast en sem betur fer er enginn í bænum. Varnargarðarnir hafa aftur sýnt mikilvægi sitt í að vernda Grindavíkurbæ.

Þetta segir Víðir Reynisson, sviðsstjóri almannavarna í samtali við mbl.is.

„Staðan er þannig að [hraun] er farið yfir allar leiðir inn til Grindavíkur nema Suðurstrandarveginn og þar af leiðandi er bara ein leið inn í bæinn eins og er. Það stefnir hraun á Suðurstrandarveginn og við vitum ekki alveg hvað gerist, vonandi fer nú að draga eitthvað úr mesta kraftinum á þessu,“ segir Víðir.

„Eðli þessara gosa er  yfirleitt þannig að að mesti krafturinn stendur ekkert mjög lengi yfir. En viðbragðið við því er í sjálfu sér ekkert annað heldur en að, þegar hraunflæðið hættir, að leggja nýjan veg. Það er það eina sem hægt er að gera, en núna er enginn inni í Grindavík þannig að ef til þess kæmi að það lokaðist alveg er hægt að fara sjóleiðina ef við þurfum að fara þarna inn. En planið er auðvitað, eins og við höfum gert í nokkur skipti hingað til, að leggja veg yfir hraunið þegar það er hægt,“ segir Víðir.

Vegagerðin vön að leggja vegi yfir glóandi hraun

Hann segir tímalínu varðandi lagningu nýs vegar reiknaða í dögum en ekki vikum ef til þess kæmi.

Vegagerðin metur það bara og þeir hafa nú brugðist mjög hratt við. Það eru nú til myndir af því þar sem þeir eru nánast að leggja yfir glóandi hraun. Þetta er talið í dögum en ekki vikum sem að þurfa að líða þangað  til er hægt að gera, að minnsta kosti, neyðarleiðir inn í Grindavík.“

Líklega verði ljóst um miðnætti hvernig fari.

„Það skýrist bara í kvöld, miðað við þá tímalengd sem hin gosin hafa verið öflug, þá ætti staðan að vera nokkuð ljósari um miðnætti í kvöld, eða eitthvað svoleiðis. Þá sjáum við betur hvað verður búið að renna mikið hraun og þá svona vonandi verður nú farið að hægja á þessu en ómögulegt að segja. Við vitum það alveg að náttúran hagar sér eins og hún gerir, hvað sem okkur langar að hún geri eitthvað annað, þá fer hún nú ekkert eftir því. En við teljum að myndin verði svolítið skýrari undir miðnætti í kvöld.“

Mörgum brugðið og vonast eftir ört minnkandi krafti

Víðir játar því að aðeins öðruvísi tilfinning fylgi þessu gosi en þeim fyrri.

„Já, mjög mörgum var náttúrulega brugðið að sjá hversu hratt hraunið rann og fljótt það tók út þessa vegi sem eru farnir og hefur nú þegar skemmt hápennulagnirnar inn í Grindavík. Kaldavatns- og heitavatnslagnirnar inn í Grindavík eru allaveganna komnar undir hraun en varnirnar sem voru gerðar á þeim virðast allaveganna duga ennþá þannig þær eru ennþá virkar,“ segir Víðir. 

„Og að sjá svo hraunið renna af þessum krafti meðfram varnargörðunum, og sjá hvað þeir hafa gert til þess að verja byggðina. Ef það er eitthvað jákvætt í þessu þá tekur maður það með sér að varnargarðarnir eru enn og aftur, og klárlega í dag, búnir að bjarga Grindavík. Grindavík hefði varla verið til eftir þennan dag hefðu varnargarðarnir ekki verið,“ segir Víðir.

Þá segir hann óskastöðu vera að fljótt dragi úr krafti líkt og áður.

„Við erum að vona bara náttúrulega að það dragi hratt úr þessu eins og hefur gerst með gosin hingað til að sólarhring eftir að þau byrja hafa þau verið skugginn af sjálfum sér og við vonum að það verði svoleiðis með þetta gos líka. Það væri óskandi, þetta er það nálægt bænum og mikið hraunrennsli í kringum þessa innviði alla að við viljum losna við þetta sem allra fyrst,“ segir Víðir að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert