Mesta virknin nær Grindavík

Fjölmiðlar eru mættir á vettvang, þar á meðal blaðamaður og …
Fjölmiðlar eru mættir á vettvang, þar á meðal blaðamaður og ljósmyndari mbl.is og Morgunblaðsins. mbl.is/Hermann

Mesti krafturinn í gosinu við Sundhnúkagígaröðina virðist vera syðst á sprungunni, þ.e. þeim hluta sprungunnar sem er næst Grindavík. Hraunið rennur samt ekki í suðurátt.

„Það er gífurlegur kraftur í þessu,“ segir Hermann Nökkvi Gunnarsson, blaðamaður mbl.is sem hefur komið sér fyrir nálægt Arnarsetri norður af Grindavík til að fylgjast með gosinu.

Þaðan er gott útsýni og mun hann fylgjast með framvindu gossins.

Gífurlega mikill reykur

Hermann segir að flestir viðstaddir fjölmiðlamenn séu sammála um að gosið sé með þeim öflugustu sem orðið hafa á svæðinu síðustu mánuði.

„Þetta virðist vera mesti reykurinn sem við höfum séð,“ segir Hermann en gosmökkurinn náði upp í um 3,5 kílómetra hæð í upphafi goss, að sögn Veðurstofu.

Hann bendir þá á að gosið sé það kraftmesta sem hann hefur barið augum en Hermann hefur nú margoft farið á vettvang fyrir hönd mbl.is þegar gos hefst á Reykjanesskaga. 

Eld­gosið hófst kl. 12.46 í dag. Svo virðist sem jarðeldurinn hafi brotist út norðaustan við Sýlingarfell, á svipuðum slóðum og síðasta gos. Gosið er það átt­unda á skag­anum á rúmum þremur árum og um leið það fimmta til að brjótast út á aðeins rúmu hálfu ári.

mbl.is heldur áfram að fylgjast með framvindu eldsumbrotanna á Reykjanesskaga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert