Sprengigos vísbending um að fljótt dragi úr virkni

Dökkur reykur hefur stígið upp frá syðri hluta gossprungunnar. Þorvaldur …
Dökkur reykur hefur stígið upp frá syðri hluta gossprungunnar. Þorvaldur telur að sprengigos sé hafið. Skjáskot/mbl.is

Sprengivirknin á suðurenda gossprungunnar við Hagafell gæti þýtt að virknin í eldgosinu fari fljótlega að minnka. Sprengigosinu gæti aftur á móti fylgt gjóskufall.

Svart­ur og brúnn gos­mökk­ur hóf að stíga upp frá syðri hluta gossprung­unn­ar rétt fyrir kl. 16 í dag. Kröft­ug­ar spreng­ing­ar sáust þar öðru hvoru.

Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur segir nánast ekkert annað koma til greina en að sprengigos sé hafið á suðurendanum.

„Þetta er bara sprengivirkni. Það er ekkert öðruvísi,“ segir Þorvaldur við mbl.is. Sprengigos verður til við samspili kviku og grunnvatns. Þá sýður vatnið og þenst út.

En hvað þýðir það fyrir framvindu eldsumbrotanna? „Það gæti farið svo að það verði bara sprengivirkni á suðurendanum og hraunflæðið myndi stoppa,“ segir Þorvaldur.

Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði við Háskóla Íslands.
Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði við Háskóla Íslands. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hraunflæðið afar snöggt

Gjóskugígur getur því myndast í kring um suðurenda sprungunnar og samfara því gæti orðið öskufall, að sögn Þorvaldar.

„Það breytir framvindu gossins og sviðmyndinni töluvert. Þetta hraun sem fór þarna suður eftir hefur náttúrulega farið mjög hratt, hefur flætt um kílómetra á klukkustund,“ segir eldgosafræðingurinn.

Þorvaldur bendir á að gosið sé með þeim öflugri í núverandi goshrinu, jafnvel öflugra en gosið frá því í desember.

Metmagn af kviku, hátt í 20 milljónir rúmmetra, hafði safnast í kvikugeymi undir Svartsengi en Þorvaldur býst samt við því að fljótlega dragi úr virkni gossins, enda hafi það hafist af svo miklum krafti að kvikugeymirinn hljóti tæma sig afar hratt.

Verður gosið alfarið að sprengigosi?

Sprengivirknin gæti einnig verið vísbending um að það fari að draga úr virkni eldgossins.

„Ég reikna með á næstu klukkustundum að gosið detti niður og það geti vel verið ástæðan fyrir sprengivirkninni á suðurendanum,“ segir hann.

Hann bendir á að þegar dregur úr hraunflæði upp úr gígnum gæti leiðin orðin greiðari fyrir grunnvatn að renna í gosrásina.

„Þetta gæti verið vísbending um það að þé farið að draga aðeins úr flæðinu upp þennan kvikugang,“ segir Þorvaldur.

Gasmengun fýkur í suðausturátt

„Sem betur fer stendur vindurinn þannig að mökkurinn hefur verið að fara fyrst og fremst suðaustur. En allt sem er þar undir gosmekkinum getur orðið fyrir gjóskufalli, eins líka að vart þéttist í þessum gosmekki og það rigni úr honum. Það regn getur verið ansi súrt,“ segir Þorvaldur. 

Þorvaldi þykir margt athyglisvert við þetta eldgos, einkum að það hafi byrjað á nákvæmlega sama stað og síðustu gos, að eldgosinu í janúar undanskildu.

„Það er greinilegt að gosrásin [frá kvikugeyminum í Svartsengi] liggur þar, undan Svartsengi og beint upp þar sem sprungan er austan Stóra-Skógsfells,“ segir hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert