Land í Svartsengi seig um 15 sentimetra

Verulega hefur dregið úr eldgosinu frá því í gær.
Verulega hefur dregið úr eldgosinu frá því í gær. mbl.is/Eyþór

Land í Svartsengi seig um 15 sentimetra þegar kvika hljóp þaðan í Sundhnúkagígaröðina þegar eldsumbrot hófust.

Kvikugangur sem myndaðist nær frá Stóra-Skógfelli að Hagafelli. Áætlað er að um 15 milljón rúmmetrar af kviku hafi farið úr kvikuhólfinu sem liggur undir Svartsengi.

Þetta kemur fram í tilkynningu Veðurstofunnar.

Þar segir jafnframt að gervitunglamyndir sem teknar voru snemma í morgun sýni ekki markverðar hreyfingar á sprungum innan varnargarða við Grindavík. 

Rauntímaaflögunarmælingar sýni einnig að frá því í gærkvöldi hafi ekki mælst markverð aflögun þar.

Kortið sýnir gróflega áætlaðar útlínur hraunbreiðunnar eins og þær voru …
Kortið sýnir gróflega áætlaðar útlínur hraunbreiðunnar eins og þær voru um klukkan 17 í gær, eða þegar eldgosið hafði staðið í rúmar fjórar klukkustundir. Staðsetningu gossprungunnar er einnig sýnd með rauðum strikalínum. Kort/Veðurstofa Íslands

Mesta virknin í gamla gígnum

Verulega hefur dregið úr virkni eldgossins frá því að gosið hófst. Gosórói hefur þó verið stöðugur í nótt og í morgun. Þá hefur engin sprengivirkni verið frá því í gær.

Virknin eldgossins er nú mest nærri þeim gíg sem lengst var virkastur í eldsumbrotunum sem hófust 16. mars. Þá er virkni á nokkrum hlutum gossprungunnar norðan hans. 

Hraunrennsli er mest á svæðinu við Hagafell en hægt hefur á framrás hraunrennslis við Grindavíkurveg til móts við Svartsengi og varnargarðana vestur af Grindavík.

Krefjandi aðstæður

Aðstæður til loftmyndatöku voru krefjandi þegar sérfræðingar úr myndmælingateymi Náttúrufræðistofnunar og Landmælinga Íslands fóru í mælingaflug yfir gosstöðvarnar þar sem gosmökkur lá yfir hluta hraunbreiðunnar.

Í tilkynningu Veðurstofunnar segir að verið sé að vinna frekar úr þeim gögnum sem náðust í loftmyndafluginu. Þá sé verið að nota gervitunglamyndir til þess að fá skýrari mynd af hraunflæðinu fyrstu klukkustundir gossins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert