„Fékk bara upp í kok“

Krista útskrifaðist í vor þótt námi hennar sé hvergi nærri …
Krista útskrifaðist í vor þótt námi hennar sé hvergi nærri lokið og heimsótti Alma systir hennar hana vitanlega til draumaverksmiðjunnar í Borg englanna. Ljósmynd/Aðsend

„Þetta byrjaði í raun allt saman þegar við systir mín misstum pabba okkar, ég var þá að verða fjögurra og hálfs árs gömul,“ segir Krista Hrönn Héðinsdóttir sem nú er 26 ára gömul og nemur kvikmyndagerð í Los Angeles, forgarði draumverksmiðjunnar Hollywood.

Krista birti á fimmtudaginn færslu á Facebook-síðu sinni sem vakti verðskuldaða athygli í hennar hópi og mbl.is gerði sér mat úr á föstudaginn. Merkti Krista systur sína, Ölmu Ósk Héðinsdóttur, í færslunni en þær eru alsystur.

Hins vegar eiga þær svo þrjú yngri hálfsystkini sem þær eru með böggum hildar yfir vegna veikinda móður þeirra en glíman við Bakkus hefur fylgt henni frá því faðir Kristu og Ölmu lést.

Krista heldur frásögn sinni áfram frá láti föðurins.

„Eftir það fer allt á hausinn hjá mömmu okkar og hún sekkur langt niður í áfengisneyslu og alls konar. Margir í fjölskyldunni segja okkur að þeir hafi reynt að fá alls konar hjálp fyrir okkur, til dæmis frá barnaverndarnefnd, en þar hafi ekkert verið gert og við gengum svo í gegnum þetta þar til við vorum orðnar nógu gamlar til að flytja af heimilinu,“ rifjar Krista upp.

„Vorum alltaf á heimilinu“

Kveður hún fjölskylduna hafa búið víða um land. „Mér er sagt að það hafi verið vegna þess að mamma var að reyna að forðast barnaverndarnefnd. Þetta byrjaði allt þegar við bjuggum í Ólafsvík, þar bjuggum við þegar pabbi okkar lést og við erum frá Ólafsvík,“ segir Krista frá en faðir þeirra fórst á sjó í desember 2001 og varð konu og dætrum harmdauði.

Krista og Alma eru ákaflega nánar enda gengu þær saman …
Krista og Alma eru ákaflega nánar enda gengu þær saman um þann dimma dal í æsku sinni sem ekkert barn skyldi þurfa að þola. Krista gagnrýnir barnaverndaryfirvöld og vonast til að skrif hennar á Facebook í síðustu viku muni hringja einhverjum bjöllum í kerfi sem stundum aðhefst á sínum hraða. Ljósmynd/Aðsend

„Ég veit ekki hvort barnaverndarnefnd hafi reynt að gera nokkuð, við vorum alla vega alltaf á heimilinu í þessu ástandi. Ég man eftir að hafa farið á nokkra fundi með barnaverndarnefnd þegar ég var í Grandaskóla, við vorum þá flutt í Vesturbæinn. Ég veit ekki hvort það voru kennararnir sem höfðu frumkvæði að því en ég held að það hafi verið alveg augljóst að við vorum ekki frá heilbrigðu heimili,“ segir Krista og röddin lækkar um eins og eina áttund.

Hún kveðst muna eftir tveimur fundum en ekki mikið meiru, systurnar hafi verið á heimilinu þrátt fyrir ógæfu móður sinnar. „Við sáum margt sem við áttum ekki að sjá,“ segir Krista með þunga þess sem axlað hefur sínar byrðar langt fyrir aldur fram.

Leið í fyrsta sinn eins og á eðlilegu heimili

„Þegar maður er krakki er maður meðvirkur með móður sinni og þótt maður sjái að eitthvað er að gerast sem er ekki rétt fer maður ekki til lögreglunnar og biður um hjálp. Maður elskar bara mömmu sína.“

Sá dagur rann þó að Krista gat ekki búið við ástandið á heimili sínu.

„Ég flutti út þegar ég var að verða sextán ára og flutti þá inn til vinkonu minnar og fjölskyldu hennar sem voru mér yndisleg,“ rifjar hún upp.

„Það var í fyrsta skiptið sem mér leið eins og ég væri á einhvers konar heilbrigðu heimili. Þá fór ég að átta mig á því hve óheilbrigt mitt heimili var. Ég vissi að það sem gerðist þar var ekki rétt, en ég vissi ekki hversu rangt það var,“ segir Krista.

„Svo fyrir rúmum fjórum árum missti ég bara alla þolinmæði …
„Svo fyrir rúmum fjórum árum missti ég bara alla þolinmæði og fór þá aftur að hafa samband við barnaverndarnefnd til að reyna að fá hana til að gera eitthvað. Ég veit að aðrir höfðu líka samband við nefndina til að reyna að fá eitthvað til að gerast.“ Ljósmyndir/Aðsendar

„Elsta systkinið af þeim þremur sem búa enn hjá móður okkar var fætt þarna og Alma var á sama aldri og ég var þegar mér leið sem verst. Ég vildi ekki að systkini mín gengju í gegnum þetta sama – þegar ég fór fannst mér eins og ég væri að yfirgefa þau og skilja þau eftir á slæmum stað,“ segir Krista og vottar fyrir depurð í röddinni.

Enginn matur bara kex

„Svo fyrir rúmum fjórum árum missti ég bara alla þolinmæði og fór þá aftur að hafa samband við barnaverndarnefnd til að reyna að fá hana til að gera eitthvað. Ég veit að aðrir höfðu líka samband við nefndina til að reyna að fá eitthvað til að gerast. Þarna var ég enn þá í samskiptum við mömmu en það var á þessum tíma sem ég rauf öll samskipti við hana,“ rifjar Krista upp og er auðheyrt að þarna eru erfiðar minningar dregnar upp úr farteskinu.

En hvernig er staðan hjá móður þinni í dag, er hún á vinnumarkaði til dæmis?

„Hún hefur varla verið það síðan nánast þegar ég man eftir mér,“ svarar Krista, „allir peningar sem hún fær inn á heimilið hafa bara farið í neyslu, það hefur aldrei beint verið til neinn matur heima nema kex og eitthvað svoleiðis. Ég fékk bara upp í kok af öllu sem hún var að gera. Ég grátbað hana að fara í meðferð sem hún neitaði, hún taldi sig ekki eiga við neinn vanda að glíma,“ segir Krista blákalt.

Systurnar ungar að árum. Líf fjölskyldunnar fór á hvolf er …
Systurnar ungar að árum. Líf fjölskyldunnar fór á hvolf er faðir þeirra fórst á sjó árið 2001 og móðirin leitaði líknar í hlýrri sæng Bakkusar þaðan sem hún hefur ekki átt afturkvæmt enn. Ljósmynd/Aðsend

Alma systir hennar bjó áfram hjá móður þeirra eftir að Krista fór. „Það tók hana smá tíma að loka á hana líka, mamma varð bara verri og verri og allt að gerast fyrir framan litlu systkinin okkar,“ rifjar Krista upp.

Heppnar að vera ekki á verri stað

Á þessum tíma hafi barnaverndarnefnd gripið inn í og sent móður þeirra í meðferð.

„Hún datt svo bara í það um leið og hún kom heim eða fór bara úr miðri meðferð og heim. Hún er búin að missa bílprófið ævilangt og ég veit að það er ekkert hugsað um þau systkini mín sem búa hjá henni, þau fá ekki tannhirðu og eru með ógreitt hár. Það sem ég gekk í gegnum var fyrir tuttugu árum og þetta er enn að gerast,“ segir Krista af langvarandi óregluástandinu á heimilinu.

Hún kveður þær systur heppnar að vera ekki á verri stað í dag en raunin er. „Við hefðum auðveldlega getað endað á allt öðrum stað,“ segir Krista en sem elsta systkinið tók hún á sig ábyrgðina á heimilinu eins og hægt var framan af, svo sem oft vill verða með börn alkóhólista.

„Ég skil bara ekki af hverju við systurnar vorum ekki teknar af heimilinu og hálfsystkini okkar eru þarna enn þá,“ heldur hún áfram.

Krista axlaði snemma mikla ábyrgð eins og oft vill verða …
Krista axlaði snemma mikla ábyrgð eins og oft vill verða með börn alkóhólista og tók ekki á sér heilli eftir að hafa yfirgefið hálfsystkini sín er hún fór að heiman tæplega sextán ára, en þannig upplifði hún það sjálf. Ljósmynd/Aðsend

Pottur brotinn hjá barnaverndaryfirvöldum?

Hún kveður fjölda fólks hafa brugðist við skrifum hennar á Facebook fyrir helgina, fullorðið fólk sem sagt hafi nákvæmlega sömu sögu.

„Þetta fólk segir mér hve illa barnaverndarnefndir hafi brugðist því. Þetta er ekki í lagi. Það er eins og barnaverndaryfirvöld reyni að halda börnum á heimilum, það er bara ekki alltaf besti kosturinn. Stundum er það jákvætt en þegar þetta er komið svona langt eiga börnin skilið heilbrigt heimili, fatnað, mat og að þurfa ekki að vera í kringum áfengi og dóp og halda að það sé bara eðlilegt líf,“ segir Krista, hvumsa yfir sleifarlagi íslenskra barnaverndaryfirvalda.

„Ég vona að þessi pistill minn á Facebook dragi einhverja athygli að barnaverndarnefnd og að eitthvað raunverulega breytist,“ segir Krista Hrönn Héðinsdóttir að lokum, háskólanemi á þrítugsaldri sem staðið hefur af sér boðaföll sem drekkt hefðu mörgum einhvers staðar á leiðinni gegnum bernskumúrinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert