80 ár frá D-deginum: Morgunblaðið gaf út þrjú blöð

Blöðin þrjú sem Morgunblaðið gaf út á D-daginn 6. júní …
Blöðin þrjú sem Morgunblaðið gaf út á D-daginn 6. júní 1944 Skjáskot af timarit.is

Í dag eru 80 ár liðin frá D-deginum þegar Bandamenn gerðu innrás inn í Normandí í Frakklandi. Þann dag gaf Morgunblaðið út þrjú blöð sama daginn.

Þegar fréttir bárust til Íslands af innrásinni var Morgunblað dagsins komið í dreifingu.

Það kom þó ekki að sök. Blaðamenn höfðu hraðar hendur og var aukablað gefið út um klukkan níu um morguninn með þeim upplýsingum sem blaðamenn Morgunblaðsins höfðu þá um innrásina.

Tíðindin um innrásina þóttu svo sannarlega merkileg því þriðja blaðið var svo gefið út rétt fyrir hádegi.

„Stund frelsisins sé komin og lokabaráttan hafin"

Á forsíðu fyrra aukablaðsins var fyrst greint frá innrásinni undir yfirskriftinni: Innrás hafin – Bandamenn ganga á land í Norður-Frakklandi.

Vitnað er í dagskipan Eisenhower, yfirhershöfðingja Bandamanna, þar sem hann hvetur föðurlandsvini í hernumdu löndunum til að fara eftir fyrirskipunum sínum, stund frelsisins sé komin og lokabaráttan hafin.

Í því blaði er einnig vísað í fregnir frá Lundúnum að Hitler hafi sjálfur tekið við stjórn alls hers Þjóðverja og ætli að taka það að sér persónulega að stjórna vörninni gegn Bandamönnum.

Forsíða fyrra aukablaðs Morgunblaðsins 6. júní 1944
Forsíða fyrra aukablaðs Morgunblaðsins 6. júní 1944 Skjáskot af timarit.is

„Fólkið þyrptist í afgreiðsluna til að ná sjer í blað“

Í Morgunblaðinu 7. júní 1944, daginn eftir innrásina er sagt svo frá viðbrögðum landsmanna þegar fyrra aukablaðið var gefið út. 

„Það var ekki lengi að fljúga fiskisagan, eftir að aukablað Morgunblaðsins var komið út á götuna með innrásarfregnirnar. Fólkið þyrptist á afgreiðsluna til að ná sjer í blað og blaðasalarnir höfðu nóg að gera. Alstaðar í Austurstræti mátti líta fólk með Morgunblaðið, það voru jafnt ungir sem gamlir.“

Innrásarkort Morgunblaðsins:

Í aukablöðunum tveimur birtist svo innrásarkort Morgunblaðsins. Má þar meðal annars sjá strendur Norður-Frakklands þar sem Bandamenn gengu á land.

Innrásarkort Morgunblaðsins sem birtist í báðum aukablöðum blaðsins þann 6. …
Innrásarkort Morgunblaðsins sem birtist í báðum aukablöðum blaðsins þann 6. júní árið 1944. Skjáskot af timarit.is

 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert