Bjóða upp á flug frá Lundúnum og Manchester til Akureyrar

Flugvél frá easyJet.
Flugvél frá easyJet. Ljósmynd/Isavia/Þórhallur Jónsson - Pedromyndir

Breska flugfélagið easyJet tilkynnti í dag að það muni bjóða upp á flug frá bæði Gatwick-flugvelli í Lundúnum og frá Manchester til Akureyrar næsta vetur.

Tilkynningin kemur í kjölfarið á góðum vetri hjá easyJet sem bauð í fyrsta sinn upp á flug frá London til Akureyrar. Flogið verður á laugardögum og þriðjudögum til Manchester og London Gatwick.

„Flug easyJet frá London Gatwick til Akureyrar hefur gengið mjög vel og fljótlega eftir að það byrjaði, hófst vinna samstarfsaðila við að tryggja flug á fleiri áfangastaði. Það er mikið fagnaðarefni að ákvörðun um flug frá Manchester hafi verið tekin strax, í kjölfarið á góðum fyrsta vetri easyJet hér á Norðurlandi,“ er haft eftir Arnheiði Jóhannsdóttur, framkvæmdastjóra Markaðsstofu Norðurlands, í tilkynningu.

„Sem eina flugfélagið sem býður beint flug frá Bretlandi til Norðurlands, er það okkur sönn ánægja að bjóða upp á annan valmöguleika í flugi til Akureyrar frá Manchester-flugvelli til viðbótar við brottfarir frá London Gatwick,“ er haft eftir Ali Gayward, svæðisstjóra easyJet í Bretlandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert