Kanna þörf á joðbættu salti í brauðframleiðslu

Til skoðunar er að nota joðbætt salt við brauðframleiðslu.
Til skoðunar er að nota joðbætt salt við brauðframleiðslu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Rannsókn á joðhag 2,5 ára barna er hafin. Markmið rannsóknarinnar er að mæla joðstyrk í þvagi 2,5 ára barna til að meta joðhag þeirra.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá embætti landlæknis sem stendur að rannsókninni ásamt Háskóla Íslands, Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og Þróunarmiðstöðvar íslenskrar heilsugæslu.

Joðbætt brauð 

„Vegna minni joðneyslu fullorðinna er til skoðunar að nota joðbætt salt við brauðframleiðslu á Íslandi. Hins vegar er mikilvægt að aðgerðir til að bæta joðhag landsmanna skaði ekki viðkvæma hópa eins og ung börn. Því er þörf á upplýsingum um joðhag ungra barna til að meta hvort óhætt sé að mæla með notkun á joðbættu salti við brauðframleiðslu,“ segir í tilkynningu.

Þá segir að átta heilsugæslustöðvar taki þátt í rannsókninni og kynni hana fyrir foreldrum og forráðamönnum 2,5 ára barna sem koma með barnið sitt í skoðun.

Það eru heilsugæslustöðvarnar í Árbæ, Garðabæ, Glæsibæ, Hamraborg, Hlíðum, Höfða, Salahverfi og Sólvangi. Valfrjálst er að taka þátt í rannsókninni.

Joð úr mjólkurvörum 

„Joð er mikilvægt steinefni sem við fáum í snefilmagni úr fæðunni. Það er nauðsynlegt fyrir myndun skjaldkirtilshormóna sem eru okkur mikilvæg, meðal annars á meðgöngu fyrir eðlilegan vöxt og þroska fósturs. Við fáum helst joð úr mjólkurvörum (fyrir utan ost) og mögrum fiski eins og ýsu og þorski,“ segir í tilkynningunni.

„Í rannsókn sem gerð var árin 2017-2018 greindist ófullnægjandi joðhagur meðal barnshafandi kvenna í fyrsta sinn. Einnig sýndu niðurstöður landskönnunar á mataræði árin 2019-2021 að fullorðnir fá almennt ekki nægilega mikið af joði.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert