Skoðanakönnun DV: Ríkisstjórnin heldur velli

mbl.is

Ríkisstjórnarflokkarnir halda velli samkvæmt skoðanakönnun sem DV birtir í dag en úrtak hennar var 2.500 manns. Fá 33 þingsæti gegn 30 sætum stjórnarandstöðunnar. Mælist fylgi Sjálfstæðisflokksins 35,7%, Framsóknarflokksins 15,9%, Samfylkingarinnar 29,5%, Frjálslynda flokksins 9,3%, Vinstri grænna 8,1% og Nýs afls 1,2%.

Könnun DV er fjórða könnunin sem birtist í dag sem gefur til kynna að ríkisstjórnin haldi velli í þingkosningunum á morgun. Þannig er Sjálfstæðisflokkurinn með 37,0% fylgi og Samfylkingin með 29,4% fylgi, samkvæmt skoðanakönnun sem IBM gerði fyrir þáttinn Ísland í býtið á Stöð-2 og birt var í þættinum í morgun. Fylgi Framsóknarflokksins er 16,2% samkvæmt könnuninni og fylgi við ríkisstjórnarflokkanna því 53,2%. Fylgi Frjálslynda flokksins í könnun Stöðvar-2 mældist 7,8% og Vinstri grænna 6,9%. Nýtt afl nýtur stuðnings 0,6% kjósenda og fylgi framboðs Kristjáns Pálssonar á landsvísu mældist 0,2%. Í könnuninni svöruðu alls 3.500 manns spurningu um hvernig það hygðist kjósa á morgun.

Sjálfstæðisflokkurinn er með 32,7% fylgi og Samfylkingin með 32,6% fylgi, samkvæmt nýrri skoðanakönnun Fréttablaðsins. Þá er Framsóknarflokkurinn með 16,7% fylgi, Frjálslyndi flokkurinn með 8,9% fylgi og Vinstri grænir eru með 8% fylgi samkvæmt könnuninni. Samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar hefur fylgi Samfylkingarinnar aukist um tæp 4% og fylgi Framsóknarflokksins aukist um 0,9% frá síðustu könnun blaðsins. Fylgi Sjálfstæðisflokks hefur hins vegar minnkað um rúm 2%, fylgi Frjálslynda flokksins hefur minnkað um tæp 2% og fylgi Vinstri grænna hefur minnkað um 0,7%.

Loks fengi Sjálfstæðisflokkurinn 36,1% atkvæða og 23 þingmenn kjörna en Samfylkingin 28,5% og 18 þingmenn ef kosið yrði nú, samkvæmt skoðanakönnun Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands fyrir Morgunblaðið. Er miðað við þá sem afstöðu tóku í könnuninni, sem lauk í fyrrakvöld. Framsóknarflokkurinn bætir við sig rúmum fjórum prósentustigum frá síðustu könnun og nær kjörfylgi sínu í síðustu kosningum, fær 18,5% stuðning og héldi samkvæmt því 12 þingmönnum sínum. Samkvæmt þessu fengju stjórnarflokkarnir 35 þingmenn kjörna af 63. Félagsvísindastofnun bendir á að skiptingu þingsæta beri að taka með fyrirvara þar sem skekkjumörk eru nokkur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert