Ingibjörg Sólrún hættir í stjórnmálum

Ingibjörg tilkynnti afsögn sína á heimili sínu fyrir nokkrum mínútum
Ingibjörg tilkynnti afsögn sína á heimili sínu fyrir nokkrum mínútum

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, tilkynnti nú fyrir stundu að hún hygðist hætta störfum í stjórnmálum. Ingibjörg boðaði fjölmiðlamenn með stuttum fyrirvara að heimili sínu á Nesvegi nú skömmu fyrir kl. 17 til að tilkynna afsögn sína.

Fyrir aðeins viku tilkynnti Ingibjörg að hún hygðist bjóða sig fram í alþingiskosningum í apríl og sækjast eftir áframhaldandi formennsku í flokknum, en Jóhanna Sigurðardóttir yrði eftir sem áður forsætisráðherraefni flokksins og leiddi hann í kosningunum. Hún segist nú hafa komist að þeirri niðurstöðu að heilsu sinnar vegna treysti hún sér ekki til að starfa áfram í stjórnmálum.

Að sögn Ingibjargar gildir þessi ákvörðun hennar bæði um þingmennsku og formennsku í Samfylkingunni, frá og með landsfundi flokksins sem haldinn verður 27.-29. mars. „Með þessari ákvörðun horfist ég í augu við þá staðreynd að veikindi mín gera mér því miður ekki kleift að taka af fullum krafti þátt í þeim verkefnum sem framundan eru,“ segir Ingibjörg.  Hún segist ekki hafa séð jafn hraðan bata og hún hafði vonast eftir frá því hún tók fyrst ákvörðun sína um að halda áfram störfum, í millitíðinni hefði „tæmst út af tankinum en ekkert komið inn“ og því hafi þetta orðið niðurstaðan nú.

Jóhanna Sigurðardóttir og Össur Skarphéðinsson staðfestu bæði á fundinum að hvorugt þeirra hygðist sækjast eftir formannsembætti flokksins í stað Ingibjargar og liggur því fyrir að nýr formaður Samfylkingar verður kosinn á landsfundi í lok mars.

Ingibjörg Sólrún gegndi fyrst þingmennsku fyrir Kvennalistann árin 1991-1994 en settist aftur á þing fyrir Samfylkingu árið 2005 og hefur verið formaður flokksins síðan.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert