Vinstristjórn lífsnauðsyn

Svandís Svavarsdóttir er á hraðri leið inn í landsmálapólitíkina.
Svandís Svavarsdóttir er á hraðri leið inn í landsmálapólitíkina. mbl.is

„Ég er mjög ánægð og þakka mínum stuðningsmönnum fyrir að treysta mér til að leiða annan listann í Reykjavík. Ég lagði upp með það eftir að hafa fengið margar til þess margar áskoranir,“ segir Svandís Svavarsdóttir borgarfulltrúi, sem teljast má ein af sigurvegurum forvals Vinstri-grænna í Reykjavík. Hún náði 2. sæti og verður því á 1. sæti framboðslista flokksins í öðru hvoru kjördæminu.

Niðurstöður forvalsins voru leiðbeinandi og því liggur ekki fyrir í hvoru kjördæminu Svandís verður á lista, né heldur hvernig hinn endanlegi listi mun líta út. Það á þó að verða ljóst fyrir landsþing flokksins 20. mars, að sögn Svandísar.

„Listinn er mjög sterk blanda af reynslu þingmanna Vinstri-grænna og þeim straumum sem hafa farið um samfélagið undanfarna mánuði. Bæði eru þarna fulltrúar sem hafa verið áberandi í búsáhaldabyltingunni. Það endurspeglar þá tilfinningu sem maður hefur haft að sjónarmið Vinstri-grænna eigi samleið með kröfu um breytt og betra samfélag sem endurómaði um allt um miðjan janúar,“ segir Svandís.

Hún hefur ekki tekið ákvörðun um það hvenær hún lætur af störfum sem borgarfulltrúi í Reykjavík og stjórnarmaður í Orkuveitu Reykjavíkur.

Hún segir markmiðið það að ná þremur mönnum inn á þing í hvoru Reykjavíkurkjördæminu fyrir sig, en stærsta verkefnið sé hins vegar að tryggja vinstristjórn í landinu eftir kosningar og „að tryggja að Sjálfstæðisflokkurinn hvíli eftir kosningarnar. Það er lífsnauðsyn fyrir íslenskt samfélag að hann geri það.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert