Prófkjörið kostaði 442 þúsund

Dögg Pálsdóttir.
Dögg Pálsdóttir.

Dögg Pálsdóttir, sem tók þátt í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, birtir á heimasíðu sinni yfirlit yfir kostnað sem hún þurfti að bera af prófkjörsbaráttunni. Samkvæmt því var kostnaðurinn 441.922 krónur. Fram kemur m.a. að tvær auglýsingar í Morgunblaðinu kostuðu 174.300 krónur, viðtal í INN 74.700 krónur, viðtal í Útvarpi Sögu 53.535 krónur og auglýsingakubbur á mbl.is 38.844.

Dögg sóttist eftir 2.-4. sæti í prófkjörinu en var ekki meðal 12 efstu. Hún segist í ljósi þessrara úrslita ekki munu gefa kost á sér aftur á þessum á þessum vettvangi fyrir Sjálfstæðisflokkinn.

Þá segir Dögg, að það komi talsvert á óvart að í sjö efstu sætum á lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík séu engir aðrir en núverandi þingmenn. Miðað við háværar kröfur um breytingar verði ekki dregnar aðrar ályktanir af þessu en þær, að kjósendur í prófkjörinu séu býsna ánægðir með frammistöðu sitjandi þingmanna.

Einnig veki  athygli að hjá Sjálfstæðisflokknum sé konum sem fyrr að mestu raðað neðst. Kjósendur í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík treysti konum illa til forystu, a.m.k. þeim konum sem gefa kost á sér.

„Svo verður ekki betur séð en að samhengi sé milli útgjalda í prófkjörsbaráttunni og árangurs. Það eru mikilvægar upplýsingar fyrir framtíðina," segir Dögg á heimasíðunni.

Vefsíða Daggar 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert