Elítan vill í ESB

mbl.is/Ómar

„Og ég verð bara að segja það ég gagnrýni einhliða, elítukennda umfjöllun ákveðinnar hirðar hér í fjölmiðalheiminum í þessu máli,“ sagði Steingrímur J. Sigfússon um ESB-umræður að undanförnu.

Ummælin féllu í leiðtogaþætti Sjónvarpsins. Steingrímur svaraði því játandi þegar Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir, fréttamaður RÚV, spurði hann hvort hann væri að segja að elítan vildi í ESB.

„Það hefur áður reynst elítum hættulegt að gleyma þjóðinni,“ sagði Steingrímur og vísaði til Norðmanna og ESB kosninga þeirra.

Jóhanna Sigurðardóttir, formaður Samfylkingarinnar brást harkalega við þessari fullyrðingu Steingríms og sagði það sérkennilegt hjá honum að fullyrða að allir sem vildu ESB féllu undir einhverja elítu.

„Ég fór víða í þessari kosningabaráttu, ég hitti hér fátækt verkafólk, fólk á meðallaunum, fólk á lágum launum. Þetta var fólk sem spurði, er ekki alveg örugglega hægt að treysta því að þið ætlið að sækja um ESB-aðild. Þannig að minn ágæti félagi og vinur, ekki vera með svona miklar fullyrðingar,“ sagði Jóhanna Sigurðardóttir.

Eftir nokkurt orðaskak sagðist Steingrímur ekki hafa meint að allir sem vildu í ESB teldust til elítunnar heldur hefði hann vísað til þeirra sem stjórnuðu fjölmiðlaumfjöllun í landinu og tiltekinna fræðimanna sem alltaf væru kallaðir til. 

„Jæja, það er gott að það kom þá fram,“ sagði Jóhanna Sigurðardóttir og var greinilegt að henni líkuðu fullyrðingar formanns VG, miður vel.

„Ég er bara hreinskilinn, ég segi hlutina bara eins og ég upplifi þá. Ég upplifi þetta eins og ákveðinn klúbb sem er einhvern veginn  orðinn læstur inni í Þessari umræðu og sér lítið upp fyrir Ártúnsbrekku,“ sagði Steingrímur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert