Kosningaskrifstofa á hjólum

Ari Trausti Guðmundsson, forsetaframbjóðandi.
Ari Trausti Guðmundsson, forsetaframbjóðandi. mbl.is/Ómar Óskarsson

Ari Trausti Guðmundsson forsetaframbjóðandi mun á morgun opna kosningamiðstöð á Laugavegi 4 í Reykjavík. Kosningamiðstöð hans mun þó ekki vera í því húsnæði nema einn dag því frá og með þriðjudegi í næstu viku mun Ari Trausti og kosningastjórn hans ferðast um á höfuðborgarsvæðinu á kosningaskrifstofu á hjólum.

Mun hin færanlega kosningaskrifstofa koma við í fimm bæjarfélögum, Hafnarfirði, Garðabæ, Kópavogi, Seltjarnarnesi og Mosfellsbæ. En auk þess verður hún í Reykjavík.

Upplýsingar um staðsetningu á heimasíðu

Ekki liggur enn fyrir hvenær nákvæm dagskrá verður eða hvar miðstöðin verður hverju sinni, en um það má finna upplýsingar á heimasíðu framboðsins þegar nær dregur.

„Ari Trausti hefur verið að ferðast um landið að undanförnu. Á þriðjudag verður fyrsta opnun kosningaskrifstofu á hjólum á höfuðborgarsvæðinu,“ sagði Rúnar Þór Guðbrandsson, kosningastjóri hans í samtali við mbl.is spurður um málið.

„Þetta verður sem sagt kosningaskrifstofa á hjólum og þetta er gert til þess að geta hitt fólkið þar sem það er. Hann er búinn að fara út um allt land og hitta fólk og er núna á Norðurlandi og fer síðan á Austurland í vikunni á miðvikudag og fimmtudag. Þessvegna verðum við á þriðjudag og föstudag og alla vikuna á eftir hérna á höfuðborgarsvæðinu,“ sagði Rúnar Þór og bætti við: „Við höfum ekki opnað kosningaskrifstofu ennþá og ákváðum að gera þetta svona. Við verðum á morgun á Laugavegi 4 og í framhaldinu með þessa kosningaskrifstofu á hjólum.“

Einn dag á hverjum stað

„Við verðum bara einn dag á hverjum stað og verðum með opið frá klukkan 16-19. Þetta er svolítið öðruvísi nálgun, svona „pop up“ fyrirkomulag eins og við köllum það. Það er brjálað að gera hjá öllum núna. Það er EM og margir komnir í sumarfrí. En flestir þurfa nú að fara í matvörubúðir og við munum koma okkur fyrir á þessum stöðum, í nágrenni við traffík,“ sagði Rúnar Þór.

En hvernig kom þessi hugmynd til?

„Við sáum að Obama hafði nýtt sér þetta í sinni kosningabaráttu, farið á milli á rútu og verið með „pop up“ skrifstofur og þannig kom hugmyndin. Síðan í ofanálag þá er gríðarlega dýrt að leigja kosningaskrifstofuhúsnæði og þar sem að við erum að keyra þetta á lágmarkskostnaði þá er þetta mikið ódýrari lausn fyrir okkur. Það eru þessar tvær ástæður sem liggja að baki, að hitta fólkið þar sem það er og svo er það kostnaðurinn,“ sagði Rúnar Þór að lokum.

Ari Trausti Guðmundsson forsetaframbjóðandi ásamt eiginkonu sinni, Maríu G. Baldvinsdóttur.
Ari Trausti Guðmundsson forsetaframbjóðandi ásamt eiginkonu sinni, Maríu G. Baldvinsdóttur. www.facebook.com
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert