Styddi ekki öll mál skilyrðislaust

Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata.
Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég skrifa ekki undir stjórnarsáttmála og þau mál og vinnubrögð sem þar eru skilgreind nema það sé sannfæring mín. Þar með er ekki öllu lokið því ég veit náttúrlega ekki hvernig útfærsla hvers máls verður. Bæði efnislega og að sjálfsögðu lýðræðislega.“

Þetta segir Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, við mbl.is en hann gagnrýndi fráfarandi ríkisstjórn harðlega á síðasta kjörtímabili fyrir að hafa minnihluta atkvæða á bak við sig þrátt fyrir að hafa engu að síður nauman meirihluta á þingi. Sagðist hann sjálfur ekki vilja taka þátt í stjórnarmeirihluta sem hefði minnihluta kjósenda að baki sér.

Björn Leví sagðist ennfremur í tíð síðustu ríkisstjórnar hafa áhyggjur af siðferðinu að baki því að taka þátt í slíkum stjórnarmeirihluta: „Ég skil ekki að fólk hafi siðferðilega getað kvittað undir það að fara í meirihlutasamstarf ekki með lýðræðislegan meiri hluta á bak við þá ákvörðun. Ég skil það ekki. Ég hef áhyggjur af því siðferði, satt best að segja.

Mun leggja mat á hvert mál fyrir sig

Málið var rifjað upp í gær af Pawel Bartoszek, fyrrverandi þingmanni Viðreisnar, í ljósi þess að sú fjögurra flokka ríkisstjórn sem rætt er um að verði mögulega mynduð myndi einnig hafa eins manns meirihluta á Alþingi og minnihluta atkvæða á bak við sig. Sagðist Björn Leví í umræðum á Facebook af því tilefni standa við fyrri orð sín í þessum efnum.

Frétt mbl.is: Verður þetta minnihlutastjórn

Björn sagði ennfremur á Facebook að þetta þýddi í raun að möguleg ríkisstjórn fjögurra flokka yrði minnihlutastjórn. Spurður út í þetta segir hann í samtali við mbl.is að hann yrði þannig persónulega að vega og meta hvert mál sem kæmi frá ríkisstjórninni og hvort hann gæti stutt það. Hann væri ekki að fara að styðja öll stjórnarmál skilyrðislaust.

„Þannig að ég verð, þegar hvert mál verður tekið fyrir, að spyrja mig: Er lýðræðislega farið að, er efnislega verið að framfylgja stjórnarsáttmálanum. Ef svo er mun ég að sjálfsögðu styðja málið. Ég er ekki að fara að loka augunum og styðja mál eftir því hvaðan það kemur,“ segir Björn Leví. Grunnstefna Pírata sé að skoða mál óháð því hvaða þau komi.

Þyrfti að eiga víðtækara samráð

Björn Leví segist þannig aðspurður áskilja sér allan rétt til þess að vega og meta öll þingmál frá ríkisstjórninni, verði hún sett á laggirnar, út frá sannfæringu sinni og ákveða hvort hann styðji þau eða ekki. „Það er algert grundvallaratriði til þess að þessi stjórn geti í raun myndast að það verði starfað þannig. Mér finnst það í rauninni ekkert óeðlileg krafa.“

Þannig segir Björn Leví aðspurður að það gæti vel komið til þess að hann styddi mál frá stjórnarandstöðunni ef það samrýmdist sannfæringu hans. Spurður út í ummæli hans um minnihlutastjórn segir hann það sína túlkun að sú stjórn sem viðræður standi yfir um myndi starfa sem slík og þyrfti því að leita víðtækara samráðs en sem nemur 32 þingmönnum.

Björn segir gagnrýni sína aðallega hafa beinst að því að síðasta ríkisstjórn hafi að reynt að koma málum í gegn í krafti naums meirihluta á þingi þrátt fyrir að hafa minnihluta atkvæða á bak við sig. Það væru vinnubrögð sem hann væri ekki sáttur við. Það skipti hins vegar ekki máli ef staðið væri lýðræðislega að málum og byggt á víðtækari stuðningi í þinginu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert