Vill breytt stjórnkerfi og aðalskipulag

Dagur B. Eggertsson og Eyþór Arnalds er þeir voru gestir …
Dagur B. Eggertsson og Eyþór Arnalds er þeir voru gestir Þingvalla á K100 í síðasta mánuði. Skjáskot/K100.is

Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í komandi borgarstjórnarkosningum, ætlar að gera breytingar á stjórnkerfi borgarinnar og aðalskipulagi hennar á sínum fyrstu hundrað dögum í embætti nái hann kjöri sem borgarstjóri.

Þetta kom fram í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni þar sem hann og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri voru í viðtali.

Einnig sagðist hann ætla í viðræður við ríkið um gatnamál, þar á meðal Sundabrautina. Hann sagði einnig að borgin hefði runnið út á tíma í mörgum málum.

Dagur svaraði þannig að kyrrstaða hafi verið fyrstu árin eftir hrun en núna sé staðan þannig að aldrei fleiri íbúðir hafi farið í uppbyggingu. Hann sagðist stoltur af þróun borgarinnar og taldi að kosningarnar muni snúast um framtíðarsýn borgarinnar.

Hann sagði mikilvægt að þróa borgina inn á við og í græna átt og nefndi að borgin yrði að vera fjölbreytt og áhugaverð í aukinni alþjóðlegri samkeppni.

Bætti hann við að stórar lausnir á borð við borgarlínu muni koma að góðum notum.

Eyþór gagnrýndi borgarstjórnina fyrir að hafa ekki samið við grunnskólakennara og að hafa ekki lokið menntastefnu. Einnig sagði hann borgina hafa lofað hlutum í samgöngumálum sem ríkið eigi að borga en hafi ekki efni á.

Dagur sagði að þær lausnir sem Eyþór hefði sett fram í samgöngumálum muni auka tafir í umferðinni og auka kostnað heimilanna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert