Starfsfólkið er lykillinn að árangri fyrirtækisins

DK Hugbúnaður
DK Hugbúnaður Morgunblaðið/Kristinn Magnússon

Mér finnst gaman að sjá hugmyndir verða að veruleika og takast á við metnaðarfull markmið. Nú þrífst ég á því að vinna að framtíðarsýn dk. Við höfum náð góðum árangri og leggjum áherslu á að vera í formi til framtíðar. Ég er forvitin að eðlisfari og þrífst því vel í tæknigeiranum, þar er alltaf eitthvað nýtt og spennandi sem við erum að fást við,” segir Hulda Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri dk hugbúnaðar. Hulda hefur gegnt því starfi síðan í nóvember 2022 en áður gegndi hún stöðu sviðsstjóra sölu- og markaðssviðs hjá fyrirtækinu frá nóvember 2021.

„Ég er vissulega með ástríðu fyrir því sem ég er að gera, en sérstaklega gaman finnst mér að hjálpa fólki og fyrirtækjum að vaxa og ná markmiðum sínum,“ segir Hulda.

„Ég hef fengið að kynnast því hversu gríðarlega mikil þekking, fagmennska og kraftur býr hjá dk og er ákaflega stolt af því að fá að leiða þann frábæra hóp fólks sem þar starfar í gegnum þær áskoranir sem við stöndum öll frammi fyrir í stafrænum veruleika. Ég veit fátt skemmtilegra en að vera leiðandi í stafrænni vegferð og þess vegna hef ég þrifist vel hjá tækni- og ráðgjafafyrirtækjum í alþjóðlegu umhverfi.“

Hulda er gift með tvö uppkomin börn og á tvær ömmustelpur að auki. Hulda er mikil fjölskyldumanneskja og lifir fyrir góðar stundir með fjölskyldunni. “Ömmuhlutverkið er stórkostlegt og samverustundirnar með ömmustelpunum mínum engu líkar. Ég og maðurinn minn, Árni, leitumst við að lifa lífinu lifandi, erum bæði í þríþraut og höfum verið að spreyta okkur á hálfum járnkarli. Þetta finnst okkur skemmtilegt, sérstaklega félagsskapurinn en systur mínar hafa líka verið með mér í þessu sporti og æfingarnar styrkjandi fyrir líkama og sál,” segir Hulda.

„Ég er uppalin í vesturbænum og er Reykvíkingur í báðar ættir, yngsta dóttir af fjórum fyrrv. rektorshjónanna Valdísar Árnadóttur og Guðmundar K. Magnússonar prófessors. Auk Íslands hef ég verið búsett í Svíþjóð og Bandaríkjunum. Ég hef alltaf verið mikill bókaormur og haft gaman af því að læra. Þar liggur minn drifkraftur og ég heillaðist af heimi upplýsingatækni þar sem við þurfum sífellt að vera að aðlaga okkur að breyttum aðstæðum.“

Gaman að starfa á kraftmiklum vinnustað

Hulda er iðnrekstrarfræðingur, með B.Sc. í alþjóðlegri markaðsfræði frá Tækniháskóla Íslands og MA-diplómu í fræðslu og stjórnun frá HÍ auk þess að vera PCC-vottaður markþjálfi. Hulda var áður framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar norska tæknifyrirtækisins Itera sem hefur síðastliðin ár verið á lista yfir mest nýskapandi fyrirtæki Noregs, þvert á atvinnugreinar. Árið 2019 stofnaði hún ásamt eiginmanni sínum Clarito, sem sérhæfði sig í stjórnun viðskiptatengsla með skýjalausnum frá Microsoft.

Frá 2015-2017 var Hulda sölustjóri samstarfsaðila hjá Crayon og frá 2007-2014 starfaði hún hjá Microsoft, lengst af sem sölustjóri lítilla- og meðalstórra fyrirtækja. Hún hefur einnig verið mannauðsstjóri hjá Fjármálaeftirlitinu, yfirmaður markaðsrannsókna hjá Icelandair og deildarstjóri tölfræði hjá Flugmálastjórn. Hulda er jafnframt einn af stofnendum VERTOnet, samtaka kvenna í upplýsingatækni.

„Ég kem inn til dk á tímapunkti þar sem breytingakraftur ríkti innan fyrirtækisins. Upplýsingatækni er sá geiri sem þróast hvað hraðast, fullur af lífi og nýsköpun og grundvallast á hugviti og þekkingu. Segja má að landamærin séu að þurrkast út og samkeppni við erlend fyrirtæki að aukast. Við erum stöðugt að þróa nýjar lausnir og leggjum okkur fram við að viðskiptavinir okkar njóti bestu lausna og þjónustu hverju sinni.“ segir Hulda. „Kraftinn í vinnunni fæ ég í gegnum bæði verkefni og samstarf.

Hjá dk starfar öflugur hópur fólks með gríðarlega reynslu, góða menntun og sérhæfingu. Við erum með fjölbreyttan hóp samstarfsaðila og viðskiptavini í öllum atvinnugreinum. Drifkrafturinn hjá dk er mikill og mér finnst ákaflega skemmtilegt að starfa á svona kraftmiklum vinnustað.“

Fyrst í flokki framúrskarandi fyrirtækja

dk er í fyrsta sæti meðalstórra fyrirtækja sem Framúrskarandi fyrirtæki Creditinfo og í fyrsta sæti í sama flokki sem Fyrirmyndarfyrirtæki í rekstri 2023 Keldunnar og Viðskiptablaðins, auk þess að fá viðurkenningu Jafnvægisvogarinnar annað árið í röð. Hjá fyrirtækinu eru nú konur í meirihluta stjórnenda í fyrsta sinn í sögu fyrirtækisins, auk þess sem stjórnarformaðurinn er kona að sögn Huldu. Rekstur dk hefur verið stöðugur og við leggjum áherslu á fjölbreytni, ekki bara hvað varðar jafnrétti, heldur einnig hvað varðar samvinnu aldurshópa og samvinnu þvert á landshluta og landamæri sem dæmi.

Hulda kveðst hafa heilmikinn áhuga á framþróun og telur að framtíðin sé sérstaklega áhugaverð enda munu tækninýjungar, svo sem gervigreind hafa áhrif á líf okkar allra.

Hulda segir að dk hugbúnaður hafi náð góðum árangri í gegnum árin. dk hefur selt einn vinsælasta viðskiptahugbúnað landsins í aldarfjórðung og starfa um 60 manns hjá fyrirtækinu við hugbúnaðargerð og þjónustu í Reykjavík og á Akureyri. Um ræðir alhliða viðskipta- og upplýsingakerfi, sem er þróað á Íslandi fyrir íslenskar aðstæður og er leiðandi á sínu sviði. Hröð, nákvæm og örugg meðhöndlun upplýsinga er lykilþáttur í rekstri fyrirtækja og er ráðandi, jafnt við daglega stjórnun sem stefnumótandi ákvarðanir.

Síðasta ár hjá dk einkenndist af framsækni og virðisaukandi nýjum lausnum fyrir viðskiptavini okkar. Til að mynda kom ný útgáfa af dk hugbúnaðinum út í síðasta mánuði sem innihélt fjöldan allan af nýjungum og góðum viðbótum. Kerfið er í stöðugri þróun í takt við markaðinn og er gríðarlega spennandi nýjunga að vænta á árinu. dk One appið, hefur verið mjög vinsæl lausn hjá dk og er ætlað fyrir þá notendur sem eru mikið á ferðinni og vilja geta nýtt nýjustu tækni. dk One er bæði veflausn og app sem einfaldar vinnu við bókhald, sölu, samþykktir reikninga, kostnaðarskráningu, verkbókhaldsskráningu og skýrslugerð. Nýtt afgreiðslukerfi hefur líka verið gríðarlega vinsælt hjá okkur undanfarið, dk Pos App er afgreiðslukerfi og posi í einu og sama tækinu.

Eins höfum við verið að þróa sérhæfðar lausnir fyrir ýmsar atvinnugreinar, svo sem sjómannalaun, heilbrigðislausnir, félagakerfi og flestir ættu að þekkja app sem dk þróaði fyrir Endurvinnsluna, skilað og skannað, þar sem viðskiptavinir fá skilagjaldið greitt út í gegnum app í símanum.

Í dag eru notendur dk hugbúnaðar hérlendis um 11.000. Þeir eru úr flestum atvinnugreinum og fjölgar ört. dk býður upp á heildarlausnir í hýsingarþjónustu og yfir 31.000 fyrirtæki eru í hýsingu hjá dk hugbúnaði. Í dag er hýsingarþjónusta dk hugbúnaðar ein sú stærsta á landinu. Notendur kerfisins tengjast þjónustunni gegnum netið, hvaðan sem er úr heiminum sem skapar tvímælalaust hagræði.

Framtíðin er björt hjá dk

„Við hjá dk erum sjálfstæð eining á Íslandi en erum partur af stærri heild. Þá er ég að vísa til þess að eigendur dk eru TSS (Total Specific Solutions), sem er með yfir 160 fyrirtæki í heiminum í dag í 26 löndum. TSS er hluti af Topicus sem er skráð í hollensku kauphöllinni. Fyrirtæki í eigu TSS á Norðurlöndunum eru í dag 17, og þar af 2 á Íslandi. Það er mikill styrkur að hafa svo öflugt bakland,” segir Hulda.

„Við viljum hafa jákvæð áhrif á umhverfið og erum með sjálfbærnimarkmið okkar að leiðarljósi. Starfsfólkið okkar er lykillinn að árangri fyrirtækisins og við kappkostum að bjóða upp á eftirsóknarvert starfsumhverfi og erum á spennandi vegferð hvað það varðar. Eins fluttum við höfuðstöðvar okkar nýlega á Dalveg 30, sem er nýtt húsnæði sem er byggt samkvæmt byggingarstöðlum BREEAM en meðal markmiða BREEAM vistvottunar er að lágmarka neikvæð umhverfisáhrif við hönnun og framkvæmd bygginga og skapa heilnæman vinnustað,“ segir Hulda.

„Ég leitast við að hafa áhrif á fólk með góðum samskiptum og opnum huga, leitast við að vera betri í dag en í gær. Ég horfi björtum augum til framtíðar dk sem stendur styrkum fótum, 25 ára, og hefur eftirspurn eftir vörum og þjónustu dk aldrei verið meiri. Við höfum náð árangri og ætlum okkur áfram að vera leiðandi í stafrænni framtíð.”

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka