Spennandi tímar fram undan með fjölbreyttum lausnum

Orka náttúr­unnar fagnar tíu ára afmæli þetta árið og hlutverk okkar er að framleiða og selja rafmagn, rafmagnið okkar kemur frá þremur virkjunum; Hellisheiðarvirkjun, Nesjavallavirkjun og Andakílsárvirkjun, og við framleiðum um 17% af allri raforku hér á landi. Einnig sjáum við meirihluta höfuðborgarsvæðisins fyrir heitu vatni,“ segir Jóhann Ingi Magnússon, sölustjóri hjá Orku náttúrunnar.

Markmið fyrirtækisins er að gæta hagsmuna auðlinda landsins og viðskiptavina fyrirtækis­ins með sjálfbærni að leiðarljósi. Þar með styður fyrirtækið við nýsköpun, ábyrga nýtingu auðlindarinnar og flýtir fyrir orkuskiptum með minna vistspori, samfélaginu öllu til heilla.

„Þjónusta við viðskiptavini er okkur afar mikilvæg og með frábæru starfsfólki ON tryggðum við okkur efsta sæti Íslensku ánægjuvogarinnar fyrir árið 2023 og er þetta fimmta árið í röð sem við hljótum þann heiður, heiður sem við metum mikils,“ segir Jóhann og bætir við: „Þá sérstaklega í ljósi þess að samkeppni í sölu á rafmagni og hleðslu­lausnum er að aukast og fram undan eru spennandi tímar og ólíkar lausnir í vinnslu.“

Hvar viljum við hlaða rafbílinn?

Orkuskipti í samgöngum hafa kallað á nýja nálgun ON til að selja rafmagn, hvort sem er heima, á vinnustað eða á ferðinni að Jóhanns sögn. „ON lagði strax mikla áherslu á að styðja við orkuskiptin og fyrsta hraðhleðslustöðin var sett upp af ON fyrir tíu árum og árið 2018 „lokuðum“ við hringnum og settum upp 50 kW stöðvar með reglulegu millibili á hringveginum. Síðan þá hefur margt breyst og fjölmargir aðilar komnir á vagninn til að drífa áfram orkuskiptin,“ segir hann.

„Okkar sýn er að rafbílaeigendur vilji hlaða þar sem þeir stoppa en ekki stoppa til að hlaða eins og hefur tíðkast á hefðbundnum eldsneytisstöðvum. Það sjáum við vel þar sem til viðbótar við hraðhleðslunetið okkar hafa hverfahleðslur ON notið mikilla vinsælda í hverfum sveitarfélaga og á lykilstaðsetningum þar sem bílar stoppa til lengri tíma.“

Út frá reynslu síðustu tíu ára hjá fyrir­tækinu hefur starfsfólk ON lagt vinnu í að greina hvar viðskiptavinir þess vilja hlaða og hvaða þjónustu þeir vilja sjá á hleðslustaðsetningum. „Út frá þessu erum við að þróa nýja nálgun í uppbyggingu hleðslunets okkar með því að gera þær fjölskylduvænni, með gott aðgengi og staðsettar þar sem önnur afþreying er til staðar,“ segir Jóhann.

Þjónusta allan sólarhringinn

„Til gamans má nefna að samkvæmt tölum úr hleðsluneti okkar frá árinu 2023 þá var bíl stungið í samband 720 þúsund sinnum eða tæplega tvö þúsund hleðslur á dag sem sýnir að hluta umfang rafbíla í samgöngum. Okkur reiknast til með nálgun að rafmagn sem fór í gegnum okkar kerfi samsvari akstri á bensínbíl í 66 milljónir km og hafi sparað í útblæstri 12,2 þúsund tonn í CO2,“ segir Jóhann.

„Til viðbótar við almenningshleðslunet ON er lykillinn að þægilegum orkuskiptum að hafa aðgengi að hleðslu á rafbílinn heima og hjá fyrirtækjum ef kostur er. Hleðsluáskrift ON er heildstæð lausn í hleðslu rafbíla þar sem sótt er um áskrift að hleðslustöð og með henni tryggjum við áhyggjulausa lausn og svörum allan sólarhringinn í símann ef notendur lenda í vandræðum.“

Notkun hleðslustöðva eykst hratt

Orkuskipti í samgöngum hafa kallað á nýja nálgun ON til …
Orkuskipti í samgöngum hafa kallað á nýja nálgun ON til að selja rafmagn, hvort sem er heima, á vinnustað eða á ferðinni að Jóhanns sögn. Ljósmynd/Aðsend

Fyrirtækjalausn ON hefur þróast í gegnum árin að þörfum viðskiptavina og hjá fyrirtækinu eru fjölbreyttar lausnir lykilatriði, hvort sem það er til að hlaða rafbíla starfsmanna, viðskiptavina eða eigin bíla. „Við bjóðum upp á hefðbundnar hleðslulausnir (AC) og hraðhleðslulausnir (DC) eftir því sem hentar og ef búið er að setja upp stöðvar og þær hafa tengimöguleika inn í kerfi okkar þá er hægt að nýta hann áfram,“ segir Jóhann.

„Með því að vera hluti af ON hleðslulausnum geta fyrirtæki nýtt sér greiðslulausn okkar sem tæplega 44 þúsund notendur hafa aðgang að og birst á hleðslukorti okkar ef óskað er eftir því. Við heyrum frá þeim fyrirtækjum sem eru í viðskiptum við okkur að notkun hleðslustöðva er að aukast hratt og rafmagnskostnaður sem því nemur, ef hleðslustöðvar eru settar á gjaldskrá greiðslumiðlunar ON er á einfaldan hátt hægt að veita þessa þjónustu áfram til starfsmanna og nýta þann tíma sem við erum í vinnunni til að hlaða rafhlöðurnar. Allt helst þetta í hendur til að gera orkuskipti í samgöngum þægileg.“

Undir lokin hvetur Jóhann fólk eindregið til að líta við í básnum hjá ON á UTmessunni þar sem helstu sérfræðingar þeirra verða tilbúnir að svara spurningum og spjalla um allt mögulegt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert