Fjölskyldufyrirtæki í 48 ár

Húsgagnaverslunin Línan hefur verið í eigu sömu fjölskyldunnar frá upphafi, …
Húsgagnaverslunin Línan hefur verið í eigu sömu fjölskyldunnar frá upphafi, í 48 ár. mbl.is/Árni Sæberg

Húsgagnaverslunin Línan var stofnuð árið 1976 og er því 48 ára gömul í ár en verslunin hefur verið í eigu sömu fjölskyldu frá upphafi. Hrund Kristjánsdóttir, annar eigandi Línunnar, viðurkennir að verslunin hafi alltaf verið mjög stór partur af lífi sínu enda er hún nánast uppalin í versluninni frá sex ára aldri. Á þessum 48 árum hefur þó ansi margt breyst og til að mynda vöruúrvalið.

„Línan var lengi vel þekkt fyrir vinsælu reyrhúsgögnin sem voru á flestum heimilum og við vorum brautryðjendur í þeim á sínum tíma. Við seljum nú ekki reyrhúsgögn lengur en mörgum árum eftir að þau hættu að vera í tísku hélt fólk að við seldum enn reyrhúsgögn,“ segir Hrund og hlær.

Hrund Kristjánsdóttir, annar eigandi Línunnar, segir að frá upphafi hafi …
Hrund Kristjánsdóttir, annar eigandi Línunnar, segir að frá upphafi hafi Línan alltaf stílað inn á sanngjarnt verð. mbl.is/Árni Sæberg

Í Línunni er lögð áhersla á falleg húsgögn og fylgihluti fyrir heimilið þar sem skandinavískur stíll er hafður í fyrirrúmi. Hrund segir að frá upphafi hafi Línan alltaf stílað inn á sanngjarnt verð í stað þess að vera með stöðuga afslætti.

„Við viljum að viðskiptavinurinn fái mikið fyrir peninginn, mjög góð gæði á sanngjörnu verði. Það virðist hafa skilað sér því við erum með mikið af fastakúnnum, til að mynda fastakúnna allt frá því við vorum í Hamraborg á upphafsárum búðarinnar. Við erum líka gjarnan í samstarfi við innanhússhönnuði og arkitekta sem þekkja vörurnar og koma með viðskiptavini til okkar.“

Mikið um sérpantanir

Sófarnir í Línunni eru frá Furninova sem eru þekktir fyrir gæði og einstaklega mikið úrval en Hrund talar um að það séu sífellt fleiri sem sérpanta sófa frá fyrirtækinu. „Það er svo mikið úrval hjá Furninova að við getum ekki haft allt á lager þótt við séum vitanlega með vinsælustu módelin og áklæðin á lager.

Hins vegar er hægt að sérpanta tugi ef ekki hundruðir áklæða sem og mismunandi stærðir af sófum. Við erum kannski með þriggja sæta sófa í búðinni en viðskiptavinurinn vill hornsófa og þá er það sérpantað,“ segir Hrund og bætir við að það kosti ekkert aukalega að sérpanta en þá þurfi að greiða staðfestingargjald. „Biðtíminn er 12 vikur að meðaltali en það eru svo margir að nýta sér þetta að við fáum sendingar sirka einu sinni í mánuði.“

Í anda fjölskyldufyrirtækja er það dóttir Hrundar sem sér um vefverslun Línunnar sem hefur vaxið mjög í vinsældum síðustu ár og Hrund segist taka eftir miklum breytingum á viðhorfi fólks hvað varðar biðtíma eftir sendingum. „Áður fyrr var eins og fólk ætti erfiðara með að bíða eftir vörum og það þurfti allt að gerast strax. Í dag eru viðskiptavinir vanari því að panta á netinu og eru kannski með skýrari sýn á hvað þeir vilja. Það er því lítið mál fyrir flesta að bíða, til að mynda nokkrar vikur, eftir draumasófanum sem viðkomandi hannaði nánast sjálfur.“

Hjá Línunni er hægt að sérpanta sófa frá vinsæla fyrirtækinu …
Hjá Línunni er hægt að sérpanta sófa frá vinsæla fyrirtækinu Furninova en þau bjóða upp á tugi áklæða og alls kyns stærðir af sófum. mbl.is/Árni Sæberg

Tryggir viðskiptavinir

Hrund talar um að gæfa verslunarinnar, fyrir utan dygga og trausta viðskiptavini, séu góðir birgjar en Línan hefur verið í samstarfi við til dæmis Furninova í yfir 30 ár og Rowica Home, sem einmitt er fjölskyldufyrirtæki líka, í um 25 ár.

„Við höfum verið gríðarlega heppin og byrjuðum til dæmis að selja frá Furninova þegar þau voru að taka sín fyrstu skref sjálf. Það fyrirtæki hefur svo vaxið gríðarlega enda eru þau alltaf dugleg að koma með nýjungar. Það er mikil gæfa að vera með trausta og góða birgja. Við sáum það bersýnilega í Covid þegar ekki var hægt að fara á vörusýningar. Við gátum því bara skoðað myndir og pantað eftir því þar sem við vissum að gæðin væru góð,“ segir Hrund og viðurkennir að það sé alltaf gaman í vinnunni.

„Það er mikil ástríða sem fylgir því að starfa í fjölskyldufyrirtæki, ekki síst svona fyrirtæki sem ég hef verið viðloðandi við síðan ég var krakki. Við gerum þetta með hjartanu og leggjum allt okkar í þetta. Ég er ekki í vafa um að viðskiptavinir okkar finna það, þess vegna eigum við svona tryggan viðskiptavinahóp.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka