Aldrei of seint að byrja á einhverju nýju í lífinu

Ólöf Rún Tryggvadóttir langaði að búa til vörulínu úr íslenskum …
Ólöf Rún Tryggvadóttir langaði að búa til vörulínu úr íslenskum hráefnum og hún segir mikilvægt að fylgja ástríðu sinni. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Minn mælikvarði á góða heilsu er ef þú getur slakað á, þér líður vel bæði andlega og líkamlega. Þú ert sátt og getur notið augnabliksins ásamt því að geta fundið innri ró. Þá ertu vel sett,“ segir Ólöf Rún Tryggvadóttir, stofnandi og framkvæmdastjóri Eylíf, sem er staðsett í Sjávarklasanum en þar er frábært fyrir sprotafyrirtæki að vera að sögn Ólafar. 

„Í mínum huga er góð heilsa gott jafnvægi á líkamsástandi, bæði andlegri og líkamlegri heilsu. Við þurfum að leggja inn í heilsubankann okkar daglega. Við þurfum að huga daglega að hreyfingu, mataræði og passa upp á að takmarka streituna. Streitan er mesti skaðvaldurinn ásamt því að hreyfingaleysi og ruslmatur er mikil heilsufarsógn.“

Mikilvægt að fylgja ástríðunni

Ólöf Rún er menntaður lyfjatæknir og viðskiptafræðingur og hún hefur verið í heilsuvörubransanum í 35 ár. Hún telur það aldrei of seint að byrja á einhverju nýju, svo lengi sem ástríðan býr að baki verkefninu.

„Kveikjan að Eylíf heilsuvörulínunni var á ákveðnum tímapunkti í lífi mínu. Árið 2017 seldi ég fyrirtækið mitt sem ég var búin að byggja upp frá grunni í tæp átta ár með mikilli vinnu og miklu álagi. Eftir söluna þá hugsaði ég með mér að ég þurfi að hafa eitthvað að gera, þá rúmlega 50 ára gömul. Þetta snýst alltaf um brennandi áhuga og ástríðu. Mig langaði alltaf að búa til vörulínu úr íslenskum hráefnum og raungerðist það smám saman frá árinu 2018 og Eylíf varð til,“ segir Ólöf Rún

Eylíf heilsuvörurnar innihalda hrein íslensk hráefni og eru tvö til …
Eylíf heilsuvörurnar innihalda hrein íslensk hráefni og eru tvö til fjögur íslensk grunnhráefni í hverri vöru. Blöndurnar eru svo styrktar með vítamínum til að auka virkni þeirra. Ljósmynd/Aðsend

„Í raun er ég öðruvísi frumkvöðull og geri ég þetta frekar óvenjulega að því leyti að ég kaupi alla þjónustu á því sem ég get ekki gert sjálf. Ég útvista verkefnum til sömu aðilanna, það má líta á þá aðila sem teymið hjá Eylíf og það má líta á mig sem verkefnastjóra. Aðeins einn fastur starfsmaður er með mér, sem er í hlutastarfi og sér um sölu í verslanir. Frá upphafi var markmiðið hjá Eylíf að selja vörurnar erlendis og erum við að undirbúa það núna.“

Hrein íslensk hráefni

Aðspurð hver hugmyndin að Eylíf hafi verið segir Ólöf að hún viti það af eigin reynslu að heilsan sé dýrmæt. „Ég hef brennandi áhuga á heilsutengdum málefnum og mig langaði að bjóða upp á öflugar blöndur úr þessum frábæru íslensku hráefnum sem framleidd eru um allt land og auka þannig aðgengi almennings að þessum gæðaefnum til að leggja grunninn að betri heilsu. Einnig vildi ég auka virðið fyrir viðskiptavininn, með því að blanda saman nokkrum öflugum hráefnum í eina vöru, þannig að viðskiptavinurinn fær meira fyrir peninginn.

Nafnið á Eylíf vörulínunni hefur þýðingu, en við erum að vísa í lífið á eyjunni okkar fögru til eilífðar, þar sem við notum hráefni frá sjálfbærum auðlindum,“ segir Ólöf og bætir við að Eylíf heilsuvörurnar innihalda hrein íslensk hráefni og eru tvö til fjögur íslensk grunnhráefni í hverri vöru.

„Við styrkjum blöndurnar með nokkrum vítamínum til að auka virkni þeirra. Vörurnar bera heiti sem vísar beint í virkni þeirra, til dæmis er Active JOINTS fyrir liðina, Happier GUTS er fyrir meltinguna, Stronger BONES styrkir beinin, Smoother SKIN & HAIR er fyrir húð og hárvöxt, og að lokum styrkir Stronger LIVER bæði starfsemi lifrar og meltinguna. Þannig einföldum við og auðveldum viðskiptavinunum valið því það er mikil samkeppni á heilsuvörumarkaðinum.“

Eylíf heilsuvörurnar bera heiti sem vísar beint í virkni þeirra …
Eylíf heilsuvörurnar bera heiti sem vísar beint í virkni þeirra og til að mynda er Active JOINTS fyrir liðina. Ljósmynd/Aðsend

Handtíndar jurtir

Eylíf vörurnar eru framleiddar á Grenivík með GMP gæðastaðli og Ólöf talar um að hráefnin sem eru valdar í vörurnar eru frá sjálfbærum náttúruauðlindum víða um land. Notuð séu mörg íslensk hráefni og í náinni framtíð verði bætt við fleiri efnum. Sem dæmi nefnir Ólöf kalkþörunga sem eru frá Ískalki við Bíldudal, tíndir af botni Arnarfjarðar. „Kalkþörungarnir hafa verið mikið rannsakaðir og rannsóknir staðfesta virkni þeirra gegn beinþynningu, við slitgigt og liðagigt. Kalkþörungarnir innihalda 74 stein- og snefilefni frá náttúrunnar hendi. Smáþörungarnir (Astaxanthin) frá Algalíf í Reykjanesbæ hafa einnig verið mikið rannsakaðir og gagnast vel fyrir húðina, hjarta- og æðakerfið ásamt því að gagnast vöðvunum og flýta fyrir endurheimt eftir æfingar.

Svo má ekki gleymda kísilnum en hann kemur frá GeoSilica fyrirtækinu sem nýtir kísilinn frá affalli heitavatnsins á Hellisheiði. Kísillinn er samkvæmt rannsóknum gagnlegur fyrir bein- og bandvef og passar fullkomlega inn í blöndurnar okkar,“ segir Ólöf og bætir við að hægt sé að fá allar Eylíf vörurnar í áskrift.

„Kollagen hefur verið mikið í umræðunni undanfarið enda mikið rannsakað og vinsælt hráefni um allan heim. Kollagen er unnið úr fiskroði og það gagnast vel fyrir húð og hár, beinin og liðina. Kollgenið í vörunum okkar er unnið af tveimur fyrirtækjum, Marine Collagen í Grindavík og Protis á Sauðárkróki. Kítósan er ensím úr rækjuskel sem er unnið af Primex á Siglufirði. Kítósan eru náttúrulegar trefjar sem eru sérlega góðar fyrir meltinguna og næra okkar eigin þarmaflóru.

Jurtirnar eru handtíndar af fjölskyldufyrirtækinu Íslenskri Hollustu í Hafnarfirði og þær koma víða að um landið. Við notum birkilauf í Active JOINTS, fjallagrös í Happier GUTS og ætihvannarót í Stronger LIVER. “

 Eylíf heilsuvörurnar eru seldar í öllum apótekum og flestum stórmörkuðum auk þess sem allar upplýsingar um vörurnar má finna á heimasíðunni www.eylif.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert