Mikið úrval af vönduðum fatnaði

Stella Ingibjörg Leifsdóttir Nielsen eigandi Belladonna segir að sumir af …
Stella Ingibjörg Leifsdóttir Nielsen eigandi Belladonna segir að sumir af fastakúnnum verslunarinnar hafi byrjað að versla hjá sér fyrir 20 árum þegar búðin hóf göngu sína. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Flestar konur vilja fá að vera sérstakar og njóta sín í fötunum sínum. Þess vegna hef ég alltaf lagt áherslu á mikla fjölbreytni í búðinni hjá mér. Það eru aðeins fá eintök af hverri flík, yfirleitt bara eitt til tvö stykki af hverri stærð. Ég vil frekar hafa fleiri gerðir, stíla og liti og svo eigum við auðvitað alltaf mikið af þessum „basic“ vörum sem eru nauðynlegar í hverjum fataskáp,“ segir Stella Ingibjörg Leifsdóttir Nielsen, eigandi kvenfataverslunarinnar Belladonna en verslunin flutti nýverið á Dalveg 30 í Kópavogi.

„Ég er því með fá eintök af hverju og það útskýrir þetta mikla úrval hjá mér. Það er svo leiðinlegt að vera búin að leggja vinnu í að leita að einhverri sérstakri flík sem fer þér vel, máta allt mögulegt og mæta svo í boð og það eru nokkrir í sömu flík. Það er svolítið leiðinlegt. Ég held að við konur viljum bera svolítið af í því sem við erum í. Slagorðið okkar er líka: „Vertu þú sjálf, vertu Bella Donna“ en bella donna þýðir einfaldlega falleg kona á ítölsku.“

Verslunin Belladonna býður upp á mikið úrval af vönduðum fatnaði …
Verslunin Belladonna býður upp á mikið úrval af vönduðum fatnaði í stærðum 38-60. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Mikið af fastakúnnum

Belladonna á 20 ára afmæli í haust og Stella talar um að verslunin hafi eiginlega gengið vel frá upphafi. „Ég fékk mjög góðar móttökur strax í byrjun. Ég er ennþá með konur sem komu að versla hjá mér á þessum fyrstu árum og þær eru ennþá kúnnar hjá mér í dag. Ég er með mikið af fastakúnnum og margar sem fylgjast mjög vel með. Og svo er líka vitanlega mjög mikið af nýjum viðskiptavinum.“

Belladonna er nýflutt á Dalveginn en búðin var einmitt í Kópavogi á fyrstu árum sínum. Síðan flutti hún í Skeifuna en nýja húsnæðið er rýmra og bjartara. „Skemmtilega sturluð staðreynd. Ég byrjaði í Hliðasmára 11, svo fór ég í Skeifuna 11 og svo í Skeifuna 8. Nú er ég komin á Dalveg 30 og samtala af hinum þremur er 30,“ segir Stella og hlær.

„Það er mjög gaman að vera komin í Kópavoginn aftur. Dalvegurinn er ákkúrat miðjupunkturinn á höfuðborgarsvæðinu. Og það er svo þægilegt aðgengi hérna, það er jafnlangt úr öllum áttum.“

Skemmtilegast að vera í búðinni

Aðspurð hvers vegna Stella fór út í verslanarekstur til að byrja með segir hún að það hafi lengi blundað í henni að starfa sjálfstætt. „Ég hef unnið í heildverslunarbransanum frá því að ég var frekar ung og oft sá ég um reksturinn þegar forstjórinn fór í frí, var í bókhaldinu, starfsmannamálum og þess háttar.

Ég var ung þegar ég eignaðist börn og fór svo í skóla um 35 ára aldur. Ég útskrifaðist með BS í viðskiptafræði þegar ég var að verða fertug. Þá vildi enginn ráða svona gamla konu í vinnu. Það var því ekki auðvelt að fá vinnu þar sem menntunin og reynsla mín fyrir nám var metin til launa. Þá efldist enn meira draumur minn um að verða sjálfstæð. Eitt leiddi af öðru, ég opnaði verslunina og þetta gekk ótrúlega vel allt saman,“ segir Stella stolt og viðurkennir að eitt það skemmtilegasta við starfið sé að vera frammi í búð og hafa samskipti við viðskiptavinina.

„Það er nauðsynlegt að vera í tengslum við viðskiptavinina til að vita hvað þeir vilja. Ég geri líka mun meira gagn frammi í búð heldur en að sitja yfir bókhaldinu. Auk þess sem það er líka miklu skemmtilegra,“ segir Stella og hlær.

Það er mikið úrval af fatnaði, skóm og alls kyns …
Það er mikið úrval af fatnaði, skóm og alls kyns fylgihlutum í Belladonna á Dalvegi 30 í Kópavogi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Vönduð föt í stærðum 38-60

Belladonna býður upp á mikið úrval af vönduðum fatnaði í stærðum 38-60 en Stella talar um að þegar hún byrjaði með verslunina voru ekki margar verslanir sem buðu upp á stærri stærðir.

„Það voru einhverjar búðir en þær einblíndu á annan markhóp og voru með dýrari merki. Ég hef alltaf blandað saman, verið með fín og vönduð merki sem eru aðeins dýrari en ég er líka með ódýrari merki sem eru líka góð. Ódýr merki geta verið mjög góð, þótt það séu ekki alveg sömu gæðin og í dýrari merkjum.

Það er gott að blanda saman því oft á maður dýrari merkin lengur enda eru þau klassík en svo er gaman að hafa þessi ódýrari með sem tilbreytingu. En það sem ég hef lagt einna helst áherslu á eru þessar flíkur sem eru kannski mitt á milli þeirra dýrustu og ódýrustu. Það eru mínar vinsælustu vörur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka