Góð tilfinning að finna föt sem passa á sig

Arnar Freyr, Elín Ósk og Inga Birna, starfsmenn Curvy og …
Arnar Freyr, Elín Ósk og Inga Birna, starfsmenn Curvy og Stout, sem opnuðu nýverið glæsilega og mun stærri verslun í Holtagörðum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Verslanirnar Curvy og Stout opnuðu glæsilega sameiginlega verslun í Holtagörðum á föstudaginn og í tilefni af því eru vegleg opnunartilboð í versluninni út daginn í dag, 14. maí. Hólmfríður Guðmundsdóttir eigandi verslunarinnar talar um að með þessum flutningum sé verið að stækka báðar verslanirnar töluvert.

„Það var ekki á dagskrá að flytja en þegar bruninn varð í Fellsmúlanum í febrúar þá eyðilagðist rýmið sem Stout var í en Stout er í raun herradeild Curvy. Við vorum nýbúin að opna Stout þegar bruninn varð og þar sem það var ekkert pláss í Curvy ákváðum við að nota tækifærið og flytja í stærra húsnæði. Við fengum hjálp frá Reitum sem voru nýbúnir að gera upp Holtagarða en þar er komin lítil verslunarmiðstöð. Þeir áttu akkúrat pláss sem hentaði okkur, rúmgott og stórt eða rúmlega 600 fermetrar.“

Ný og glæsileg verslun Curvy og Stout opnaði nýverið í …
Ný og glæsileg verslun Curvy og Stout opnaði nýverið í Holtagörðum en þar eru verslanirnar með mun stærra rými en áður. mbl.is/Kristinn Magnússon

Tvöfalt stærri verslun

Hólmfríður segir að það hafi verið mjög spennandi að setja upp verslunina síðustu tvo mánuði enda sé allt búið að vera á fullu. „Hér eru Stout og Curvy í sama rými en við skiptum búðinni upp þannig að viðskiptavinir upplifa að þetta sé hvor verslunin fyrir sig þó það sé sami inngangur og afgreiðsluborð. Utan þess er þetta eins og hvor búðin fyrir sig, strákarnir fá sína eigin búningsklefa sem og stelpurnar,“ segir Hólmfríður spennt en viðurkennir að það hafi verið mjög mikil vinna að koma búðinni upp en á sama tíma einstaklega skemmtilegt.

„Þetta kemur mjög vel út og ég hlakka til að sjá hvernig viðskiptavinum okkar líst á þetta. Þetta er töluverð stækkun fyrir báðar verslanirnar, sennilega um tvöfalt stærra.“

Í Stout má finna stærðir 1xl–8xl fyrir karlmenn og bresku …
Í Stout má finna stærðir 1xl–8xl fyrir karlmenn og bresku jakkafötin eru sérstaklega vinsæl. mbl.is/Kristinn Magnússon

Bresk jakkaföt sérstaklega vinsæl

Hólmfríður talar um að bruninn hafi verið töluvert áfall enda var nýbúið að opna Stout og verslunin hafði fengið góðar viðtökur. „Ég hafði lengi gengið með þessa hugmynd í maganum því það hafði ekki verið mikið úrval af herrafatnaði í stærri stærðum á Íslandi. Þegar við loksins tókum af skarið og opnuðum búðina þá fengum við frábærar viðtökur.

Við vorum sérstaklega ánægðar með jólin, það kom okkur á óvart hvað margir komu til okkar fyrir jólin til að kaupa jakkaföt sem og jólagjafir. Í þessari nýju búð komum við fyrir enn þá meira úrvali af herrafötum,“ segir Hólmfríður en bróðir hennar, Arnar Freyr Guðmundsson, sér um Stout. „Við erum með föt í stærðum 1xl–8xl fyrir herrana en stærðir 42–60 fyrir dömurnar.

Þegar Curvy kom fyrst á markaðinn voru fáar verslanir að bjóða upp á stærri stærðir. En við höfum alltaf lagt mikið upp úr að vera sérverslun með miklu úrvali og bjóða upp á þessa persónulegu þjónustu. Það er svo æðisleg tilfinning að ganga inn í verslun og geta fundið föt sem passa á sig.“

Verslanirnar Curvy og Stout deila inngangi og afgreiðsluborði en eru …
Verslanirnar Curvy og Stout deila inngangi og afgreiðsluborði en eru annars eins og hvor verslunin fyrir sig þó þær séu í sama rýminu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Blátt er sumarliturinn

Aðspurð hvernig tískan verði í sumar segir Hólmfríður að blái liturinn sé allsráðandi og það er mikið af bláum flíkum í boði, hjá stelpum og strákum. „Þetta eru þá gallajakkar, gallabuxur og gallakjólar og helst nokkrar mismunandi tegundir eða „denim on denim“ eins og sagt er. Svo eru blómamynstur, sumarleg mynstur og bjartir og mildir litir klassískt fyrir stelpurnar á sumrin. Strákamegin erum við að taka upp fullt af havaí-skyrtum sem eru ótrúlega skemmtilegar, sem og skrautlega boli en við erum að reyna að fá strákana til að fara út fyrir þægindarammann og prófa eitthvað djarfara.

Herratískan er oft svolítið eins og breytist ekki mikið. Hún er vissulega alltaf klassísk og flott en það er gaman að fá inn svona fallegar flíkur sem poppa dálítið upp á útlitið, eins og havaí-skyrturnar. Annað sem er alltaf vinsælt í Stout eru flott jakkaföt frá breskum klæðskerum en þau eru til upp í stærð 62. Jakkafötin sem við fengum fyrir sumarið eru mjög spennandi og eru til blá, teinótt og aðeins öðruvísi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert