Var klárt markmið hjá mér

ÍÞRÓTTIR  | 12. júní | 9:20 
„Það er búið að sjá rosalega vel um okkur hérna og undirbúningurinn fyrir leikinn á móti Argentínu er alveg á áætlun,“ sagði Hólmar Örn Eyjólfsson í samtali við mbl.is fyrir æfingu íslenska landsliðsins í Kabardinka í Rússlandi í dag.

„Það er búið að sjá rosalega vel um okkur hérna og undirbúningurinn fyrir leikinn á móti Argentínu er alveg á áætlun,“ sagði Hólmar Örn Eyjólfsson í samtali við mbl.is fyrir æfingu íslenska landsliðsins í Kabardinka í Rússlandi í dag.

„Við erum byrjaðir að fara vel yfir argentínska liðið og erum að leggja það upp hvernig við munum spila á móti því og spila upp á veikleika þeirra. Það er vissulega mikill styrkleiki í þessu liði þeirra en við þurfum að láta veikleikana telja,“ sagði Hólmar Örn sem lék í stöðu hægri bakvarðar í leiknum gegn Gana á Laugardalsvellinum í síðustu viku.

„Ef landsliðsþjálfararnir vilja láta mig spila þá stöðu þá mun ég gera það en bakvarðarstaðan er ekki mín besta staða. Auðvitað undirbý ég mig eins og ég sé að fara að byrja inná en Birkir Már hefur spilað í mörg ár með landsliðinu og er bæði góður í að verjast og að sækja,“ sagði Hólmar sem er á sínu fyrsta stórmóti með íslenska landsliðinu en hann var ekki valinn í hópinn sem lék á EM í Frakklandi fyrir tveimur árum.

„Þetta er auðvitað mikið ævintýri og það var klárt markmið hjá mér að komast hingað. Það var virkilega ánægjulegt að það skildi ganga eftir,“ sagði Hólmar Örn en sjá má allt viðtalið við hann í spilaranum hér að ofan.

Þættir