Notar EM til að komast í gegnum daginn

ÍÞRÓTTIR  | 20. March | 10:35 
Hannes Þór Halldórsson gaf ekkert upp um það hvort hann gæti verið á leið til Íslands í Pepsi Max-deildina í sumar þegar hann ræddi við blaðamenn í Peralada í dag, í aðdraganda leikjanna við Andorra og Frakkland í undankeppni EM í knattspyrnu.

Hannes Þór Halldórsson gaf ekkert upp um það hvort hann gæti verið á leið til Íslands í Pepsi Max-deildina í sumar þegar hann ræddi við blaðamenn í Peralada í dag, í aðdraganda leikjanna við Andorra og Frakkland í undankeppni EM í knattspyrnu.

Hannes er samningsbundinn Qarabag í Aserbaídsjan en hefur ekkert spilað fyrir liðið síðan í nóvember og því eflaust farinn að hugsa sér til hreyfings, en hann talaði varlega eins og sjá má í meðfylgjandi myndskeiði:

„Staðan er bara sú að ég gerði tveggja ára samning við Qarabag. Planið var að vera þar í tvö ár og er það enn þá. Svo er ég ekkert hress með stöðuna, er ekki að spila, og það er ekkert leyndarmál. Auðvitað geta hlutirnir því breyst og þá verður að koma í ljós hvað gerist. En núna er ég samningsbundinn Qarabag og planið að vera þar áfram,“ segir Hannes og bætir við að framhaldið sé einfaldlega óráðið. Aðspurður hvort hann sé hikandi við að koma heim til Íslands og hvort atvinnumannsferlinum væri þar með lokið segir Hannes:

„Mér finnst bara ekki tímabært að svara spurningum um þetta núna. Það gerist einhvern tímann að ég enda á að fara heim, hvort sem það verður eftir tíma minn hjá Qarabag eða hvenær sem það verður. Deildin heima er bara flott og umhverfið mjög krefjandi þar, svo það verður ekkert „issue“ þegar að því kemur.“

Félagið mjög æst í að fá mig en svo U-beygja

Hannes hefur eins og fyrr segir ekkert spilað að undanförnu með Qarabag en hann gekk í raðir félagsins eftir þátttöku Íslands á HM í Rússlandi. Af hverju breyttist staða hans svona hjá liðinu?

„Þetta er milljón dollara spurningin. Ég var kominn í góðan takt með liðinu undir lok árs, í október, nóvember. Síðan spilaði ég einn slakan leik gegn Sporting Lissabon og það hefur verið frost síðan. Það gerðist eitthvað þarna, á þessum tíma frá því að félagið var mjög æst í að fá mig og gat ekki beðið eftir því að ég skrifaði undir, og þar til að það var U-beygja og engar mínútur. Þú þarft að heyra í félögum mínum þarna úti til að fá svör við þessu því ég hef ekki svörin,“ segir Hannes. Í þessu ljósi segir hann afar gott að heyra frá Erik Hamrén landsliðsþjálfara að hann sé enn markvörður númer eitt.

„Auðvitað. Eins og við höfum farið yfir er ég að koma úr skrýtinni stöðu hjá mínu félagsliði og auðvitað vill maður vera að spila. En þetta er bara öðruvísi, og ég hef haft þessa landsleiki sem ákveðinn endapunkt á vissu undirbúningstímabili sem ég hef verið í. Ég hef miðað allan minn undirbúning við að vera klár hérna og gert allt sem ég hef getað til að vera tilbúinn. Eina sem vantar er að spila leiki og þá er auðvitað gott að fá svona traustsyfirlýsingu rétt áður en við hittumst. Þá veit ég hvar ég stend og get haldið áfram að einbeita mér að því að vera undirbúinn fyrir leikina.“

Alls konar drasl uppi á vegg núna

Hannes vill ólmur komast á þriðja stórmótið í röð með Íslandi en öll undankeppni EM fer fram á þessu ári og markvörðurinn er með augun á EM 2020 eftir erfiða hrinu leikja hjá íslenska liðinu sem ekki hefur fagnað sigri í rúmt ár:

„Maður hefur nú alveg hlýjar minningar frá 2018 enda fórum við á HM, en það er auðvitað kominn tími til að vinna fótboltaleiki. Ég skynja mikið hungur í hópnum að fara að rífa sig í gang, fá úrslit aftur og finna þessa tilfinningu sem fylgir því að vinna leiki fyrir landsliðið. Við elskum allir að vera hérna og spila í þessu liði, og höfum upplifað frábæra tíma. Við erum mjög hungraðir í að það haldi áfram,“ segir Hannes sem fyrir HM notaði skemmtilega HM-mynd uppi á vegg til að minna sig á drauminn. Hann fer sams konar leið núna:

„Ég er með alls konar drasl uppi á vegg núna. Við þurfum að hanga svo mikið uppi á þessu æfingasvæði að ég er með mynd af familíunni og alls konar dót. Það er þarna eitthvert EM-lógó líka. Það er hluti af markmiðunum, að komast á EM, og það er eitt af því sem ég nota til að „mótivera“ mig og komast í gegnum daginn í Aserbaídsjan.“

Þættir