„Ég veit að þetta er ekki manneskja“

ERLENT  | 15. April | 20:03 
„Ég er í algjöru sjokki. Þetta er mjög átakanlegt. Ég veit að þetta er ekki manneskja en ég er eiginlega hissa á því hversu mikið þetta fær á mig,“ segir Kristín Jónsdóttir, betur þekkt sem Parísardaman, um brunann í Notre Dame-kirkjunni í París í Frakklandi.

„Ég er í algjöru sjokki. Þetta er mjög átakanlegt. Ég veit að þetta er ekki manneskja en ég er eiginlega hissa á því hversu mikið þetta fær á mig,“ segir Kristín Jónsdóttir, betur þekkt sem Parísardaman, um brunann í Notre Dame-kirkjunni í París í Frakklandi. 

Blankalogn er í París og aðstæður ættu því að vera góðar til slökkvistarfs. Hún tekur fram að það sé huggun harmi gegn að svo virðist sem enginn sé í lífshættu vegna brunans. Hún segir virðast sem svo að slökkviliðið hafi ekki náð tökum á aðstæðunum. Eldsmatur er mikill í kirkjunni, loftið, bekkirnir, myndirnar og svo mætti lengir áfram telja. 

Frétt mbl.is: 

Kristín hafði einmitt sjálf setið úti í garði í fyrsta skipti á þessu vori og dundað sér við garðyrkjustörf þegar hún fékk fréttirnar. „Sonur minn sagði mér frá þessu og ég hélt fyrst að hann hefði eitthvað misskilið þetta,“ segir hún.   

 

 

 Allur heimurinn á hlutdeild í byggingunni

„Þetta er drottningin sem stendur þarna keik. Allur heimurinn á hlutdeild í þessari byggingu. Ég vil meina að fólk elski Notre Dame bæði ungir og aldnir,“ segir Kristín og minnist einnig á fjölmargar persónur sem tengjast byggingunni órjúfanlegum böndum eins og hringjarann í Notre Dame og Esmeröldu.

Sjálf ber hún miklar og sterkar tilfinningar til byggingarinnar. „Ég fæ alltaf einhvern sting þegar ég sé Notre Dame. Sama gamla Parísarstinginn. Þessi spennutilfinning fyrir borginni að vera ástfangin,“ segir hún og bætir við „ég er eiginlega að átta mig á þessu núna um leið og ég tala við þig.“

Á leið til vinnu gengur sporvagninn hennar fram hjá Notre Dame. „Ég passa mig alltaf á að sitja þannig að ég sjái hana. Þetta er kletturinn í tilverunni sem stendur þarna í miðjunni. Ég hef skrifað nokkrar skáldsögur í huganum og þær byrja allar í Notre Dame,“ segir hún dreymin. Spurð hvort það sé ekki kominn tími til að skrifa þessar skáldsögur hlær hún við og útilokar það ekki.  

Kristín hefur búið 30 ár í Parísarborg og hyggst halda upp á áfangann á þessu ári. „Fyrir utan þessi þrjú ár sem ég gerði heiðarlega tilraun til að búa á Íslandi þá á París mig alla,“ segir hún. 

 

Þættir