Sorpurðun í uppnámi

INNLENT  | 3. júní | 13:31 
Framkvæmdastjóri Sorpu segir fátt annað í stöðunni en að framlengja þann tíma sem urða má sorp í Álfsnesi sem rennur út í lok árs 2020. Íbúar í Leirvogstungu segja það óásættanlegt og treysta því að samkomulagið standi. Verði því ekki framlengt þarf lausnir til að urða 30-60 þúsund tonn á ári.

Björn H. Halldórsson, framkvæmdastjóri Sorpu, segir fátt annað í stöðunni en að framlengja þann tíma sem urða má sorp í Álfsnesi sem rennur út í lok árs 2020. Íbúar í Leirvogstungu segja það óásættanlegt og treysta því að samkomulag frá árinu 2013 standi um að urðun verði hætt 2020. Verði því ekki framlengt þarf lausnir til að urða 30-60 þúsund tonn á ári.

Björn segir að nú sé einfaldlega svo stutt í að ríkjandi eigendasamkomulag um urðun renni út að erfitt sé að sjá fleiri kosti í stöðunni en að framlengja leyfi til urðunar í Álfsnesi. „Staðreyndin er sú að það er lítið annað í stöðunni en eigendur ræði saman um þann möguleika að breyta eigendasamkomulaginu frá 2013,“ segir Björn í samtali við mbl.is.

Á næsta ári tekur til starfa Gas- og jarðgerðarstöð á Álfsnesi sem tekin er að rísa og Björn bendir á að helsta umkvörtunarefni íbúa í Leirvogstungu, lyktin, ætti að vera úr sögunni þegar verksmiðjan tekur til starfa.

Frétt mbl.is

Á síðasta ári var 29 sinnum kvartað vegna lyktarmengunar sem barst inn í Mosfellsbæ og langflestar kvartanir berast úr Leirvogstungu en um 2.5 km eru frá hverfinu að urðunarstaðnum. Þorbjörg Sólbjartsdóttir, formaður íbúasamtaka í hverfinu, segir ljóst að íbúar sætti sig ekki við að leyfi til urðunar verði framlengt jafnvel þó að lyktarvandamálið heyri sögunni til.

„Við yrðum ekki sátt við að það verði urðað áfram. Við tökum alveg fyrir það. Við viljum að staðið verði við samkomulagið eins og það var gert í upphafi að því [urðun] yrði hætt árið 2020.“

Að sögn Björns gæti núverandi urðunarstaður verið nýttur til ársins 2022 en svæðið á Álfsnesi sem í deiliskipulagi er skilgreint þannig að það geti tekið við sorpi til urðunar gæti verið nýtt fram til ársins 2028, mögulega aðeins lengur.

Fimm til sjö ár tekur að undirbúa nýjan urðunarstað og sú vinna er ekki farin af stað þannig að möguleikar til að bregðast við vandamálinu eru ekki margir. Eitthvað gæti verið flutt úr landi en aðrar lausnir þyrfti að finna fyrir restina.

Í vikunni funda eigendur Sorpu, sem eru sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu, og vafalítið verður þetta mál fyrirferðarmikið í dagskránni.

 

Þættir