Flaggskip og önnur diplómatísk listaverk

INNLENT  | 17. október | 13:19 
Það var sérstök gjöf Norðurlandanna til Þýskalands þegar byggt var fimm þjóða sendiráð í Berlín árið 1999. Nú þekkja það allir. Fyrirmenni allra þjóða fögnuðu afmælinu í dag en það var í skugga meiri háttar vendinga í alþjóðastjórnmálum.

„Mjög sterka tilkynningu frá Norðurlöndum, ekki aðeins til Þýskalands heldur Evrópu allrar, um að þau ætli sér sameiginlega að hafa áhrif á mótun Evrópu á nýrri öld,“ kallaði Ólafur Ragnar Grímsson þáverandi forseti Íslands þá glænýtt sameiginlegt sendiráð Norðurlandanna í Berlín við vígslu þess 20. október 1999. Í fyrirsögn Morgunblaðsins var talað um að Norðurlöndin hefðu gefið Berlín sérstaka gjöf.

Sérstök gjöf skyldi það vera og nú er afmælisveisla, næstum því nákvæmlega 20 árum seinna. Utanríkisráðherrar Norðurlandanna – Íslands, Finnlands, Danmerkur, Svíþjóðar og Noregs – voru í sendiráðinu í dag og einnig utanríkisráðherra Þýskalands, Heiko Maas. Það er hátíð á þessum samnorræna bæ en hún fer fram í skugga og í ljósi mikilla vendinga í alþjóðamálum, svo sem í Sýrlandi sem og í Bretlandi.

Um 20 ára sögu sendiráðsins segir Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra Íslands að „þetta hafi gengið alveg einstaklega vel“. „Þetta er nokkuð sem allir þekkja hér í Berlínarborg,“ segir ráðherrann í samtali við mbl.is í sendiráðinu. Það liggur vel á honum á afmæli þessa, ja, „hvernig myndi maður tala um flaggskip á íslensku?“ hugsar hann upphátt, jú, það er einfaldlega flaggskip, rétt eins og það er flaggskip á öðrum Norðurlandamálum, að teknu tilliti til minni háttar misræmis í stafsetningu, og að undanskilinni finnsku auðvitað, þar sem orðið virðist vera „lippulaiva“.

 

Guðlaugur segir hvað sem öllu líður sem er, að þetta flaggskip er einstakt á heimsvísu. Það er „eini staðurinn í heiminum þar sem fimm sjálfstæð ríki eru saman með sendiráð á sama stað og sameiginlega menningarmiðstöð,“ segir ráðherrann.

Sama gamla fimm handfanga skóflan

100 þúsund manns sækja árlega heim þetta sameiginlega sendiráð, sem sendiherrann María Erla Marelsdóttir segir að myndi klárlega ekki njóta sömu vinsælda, og sama árangurs, ef hver þjóð væri sér á báti um sendiráð. Styrkurinn liggur í fjöldanum. Heiko Maas, sem María sést taka á móti í upphafi myndbandsins efst í fréttinni, kallaði sendiráðið einmitt „táknmynd marghliða samvinnu – eitthvað alveg sérstakt“.

 

María tók formlega við sem sendiherra gagnvart Þýskalandi nú í síðasta mánuði en saga hennar í sendiráðinu er þó mun lengri: Hún vann sem varamaður sendiherra í sendiráðinu í Bonn þegar það var flutt til Berlínar 1999 og þá í Berlín í nokkur ár eftir það. Hjartnæm stund, 20 ára afmælið? „Já, þetta er mjög gaman,“ segir hún. „Virkilega gaman.“

Í tilefni 20 ára afmælisins gaf Maas utanríkisráðherra sendiráðinu fuglakirsuberjatré, sem komið var fyrir í garði sendiráðsins. Táknrænt var að þar var notuð sama fimm handfanga skóflan og var notuð við fyrstu skóflustunguna að byggingu sendiráðsins í lok síðustu aldar. Sagan fer í hringi!

 

Sjá ekki eftir neinu

Guðlaugur Þór segir að það hafi verið einstakt tækifæri þegar lóðin hér í Tiergarten bauðst á sínum tíma. „Þetta var það á sínum tíma, þegar Þýskaland hafði verið sameinað og Berlín orðin höfuðborgin, og sem betur fer var farið í þessa vegferð sem enginn sér nú eftir því þetta hefur skilað mjög miklu,“ segir ráðherrann.

Sameinuð standa Norðurlöndin, sundruð falla þau. „Norðurlandasamstarfið var mikilvægt árið 1999. Það er enn þá mikilvægara núna. Mönnum stendur hugur á öllum Norðurlöndunum til enn frekara norræns samstarfs. Við viljum efla það og ekki síst út á við, því það gefur okkur styrk á alþjóðavettvangi að vinna saman,“ segir Guðlaugur. Samanber orð Maríu, um að árangurinn væri einfaldlega ekki sá sami ef hver sæti í sínu horni.

Guðlaugur tók síðan fyrstur til máls á blaðamannafundinum vegna þess að Ísland fer þetta ár með forystu í norrænu ráðherranefndinni en ekki síður vegna þess að hann var að drífa sig út á flugvöll: Washington er næst á þéttri dagskrá. Auðvitað hefur hann viðkomu á Keflavíkurflugvelli á leiðinni vestur á bóg „sem er alltaf skemmtilegt,“ segir Guðlaugur.

Ekki alveg búið að loka fyrir vopnaflutninga til Tyrklands en þvinganir engu að síður viðhafðar

Fyrir fund ráðherranna fimm hafði Guðlaugur sagt við mbl.is að til stæði að setja ástandið í Sýrlandi á dagskrá, ásamt öðrum málum. Það var gert, enda aðgerðir Tyrkja í Sýrlandi meðal þess sem efst er á baugi í alþjóðastjórnmálum þessa stundina. Afstaða Íslands er samkvæmt Guðlaugi skýr: Aðgerðir Tyrkja eru harðlega gagnrýndar og ákvörðun Trump Bandaríkjaforseta er sögð misráðin.

 

Hver Norðurlandaþjóð fyrir sig hefur þegar gripið til (mismikilla) aðgerða sem eiga að hefta útflutning vopna til Tyrklands, á meðan Tyrkir halda áfram árásum á norðausturhluta Sýrlands. Skrefið hefur ekki verið stigið til fulls hjá neinum, enn eru vopn og skotfæri flutt til Tyrklands, en að mestu eru það flutningar vopna sem eiga ekki að vera ætluð til hernaðar. Einlæg ósk þeirra allra var að þessu linnti sem allra fyrst í Sýrlandi, enda brot gegn alþjóðlegum lögum, að sögn Ann Linde utanríkisráðherra Svíþjóðar. Og því þyrfti að grípa til þessara þvingana.

„Ekkert annað en diplómatískt listaverk“

Meðan á blaðamannafundinum stóð bárust þær fréttir frá Brussel að samningur um útgöngu Breta úr Evrópusambandinu væri í höfn. Ekki kæmi því til útgöngu án samnings, sem flestir eru á einu máli um að fari gegn hagsmunum allra. Maas nefndi þau tíðindi í ræðu sinni, sagði að nú bærust „tíðindi sem lofuðu góðu“ (þ. hoffnungsvolle Nachrichten), sem væru á þá leið að ekki kæmi til samningslausrar útgöngu.

„Það er til marks um mjög ábyrga samvinnu og ég vil í því samhengi sérstaklega þakka Michel Barnier [aðalsamningamanni Evrópusambandsins] og hans hópi fyrir þessa vinnu. Þetta er ekkert annað en diplómatískt listaverk,“ sagði Maas, og ítrekaði að þetta kæmi í veg fyrir það sem annars hefði verið borgurum jafnt Evrópusambandsins sem Bretlands mjög í óhag.

Nýr samningur um Brexit í höfn

Afmælisdagskráin í sendiráðinu í Berlín heldur áfram í dag og um helgina, með opnun listasýningarinnar Ocean Dwellers síðdegis í dag, þar sem tveir íslenskir listamenn taka þátt, þær Rúrí og Hulda Rós Guðnadóttir, og síðan ráðstefnunnar Bláa hagkerfisins um helgina. Hafið er hvarvetna í aðalhlutverki á þessum viðburðum, hafið bláa hafið í forgrunni eins og á íslenska fánanum, þar sem liturinn á reyndar fyrst og fremst að minna Íslendinga á fjallablámann, en það skal látið liggja á milli hluta.

Þættir