Stærsti skjálftinn í 93 ár

ERLENT  | 26. nóvember | 12:46 
Sex létust og 150 slösuðust þegar harður jarðskjálfti reið yfir Albaníu í nótt. Skjálftinn, sem mældist 6,4 stig, er sá stærsti sem hefur riðið yfir landið í áratugi og fannst hann víða um Balkanskagann. Hús hrundu og er fólk fast undir húsarústum.

Sex létust og 150 slösuðust þegar harður jarðskjálfti reið yfir Albaníu í nótt. Skjálftinn, sem mældist 6,4 stig, er sá stærsti sem hefur riðið yfir landið í áratugi og fannst hann víða um Balkanskagann. Hús hrundu og er fólk fast undir húsarústum.

 

Upptök skjálftans voru á 10 km dýpi í um 34 km fjarlægð frá höfuðborginni, Tirana.

Frétt mbl.is

„Við erum með fórnarlömb,“ skrifaði forsætisráðherra Albaníu, Edi Rama, á Twitter. „Við gerum okkar besta á þeim svæðum sem urðu verst úti.“

Skjálftinn reið yfir klukkan 3:54 í nótt að staðartíma, klukkan 2:54 að íslenskum tíma, og þustu skelfingu lostnir íbúar út á götur Tirana. Skemmdirnar eru mestar í hafnarborginni Durres en skjálftinn er sá stærsti í Albaníu síðan árið 1926.

 

Þrjú lík fundust undir húsarústum í Durres en þar hrundi hótel á þremur hæðum til grunna auk þess sem nokkrar byggingar skemmdust. Lík karls og konu fundust undir rústum í nærliggjandi bæ, Thumane. Í bænum Kurbin lést einn maður sem stökk í örvæntingu af svölum heimilis síns þegar skjálftinn reið yfir. 

 

Um 300 hermenn eru við björgunarstörf í Durres og Thumane og segir talskona varnarmálaráðuneytisins að enn sé fólk fast undir rústum húsa.  

Í Thumane er verið að reyna að koma fólki til bjargar sem var í fimm hæða húsi sem skemmdist í skjálftanum en að minnsta kosti sex íbúar eru fastir undir rústunum. Vitað er að einhverjir eru á lífi því neyðaróp og grátur heyrast undan rústunum.

 

Þættir